Debenhams er eina deildaskipta sérvöruverslunin á Íslandi, hún er á tveimur hæðum og er sölurýmið 3.200 fermetrar. „Þar sem við náðum ekki niðurstöðu í samningaviðræðum við leigusala munum við loka Debenhams í síðasta lagi í maí á næsta ári,“ segir Finnur. „Þetta er niðurstaðan og við þurfum að takast á við hana.“

Hagar reka fjölda verslana í Smáralind. Þrátt fyrir ágætan árangur ætlar fyrirtækið að stokka mjög upp í rekstri sínum í Smáralind. Verslun Karen Millen hefur einnig verið lokað í Smáralind og er nú aðeins starfrækt í Kringlunni. Þá er verslun Útilífs að færa sig um set innan Smáralindar í minna verslunarrými og Hagkaupsverslunin verður minnkuð um nærri 200 fermetra.
„Þetta er liður í endurskipulagningu hjá okkur. Þegar allt er talið erum við að minnka við okkur í Smáralind um heila 9.500 fermetra. Því er um nokkrar breytingar að ræða,“ segir Finnur.
Orðrómur hefur verið uppi um að risinn H&M sé á leiðinni til Íslands og muni opna verslun hér á næstu misserum og nú opnast því stórt pláss í stærstu verslunarmiðstöð landsins. Finnur vildi þó ekki tengja þessa tvo atburði saman.
„Samningaviðræður okkar við leigusala um leigu fyrir Debenhams hafa ekkert með komu H&M að gera,“ segir Finnur.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. júní 2016