Viðskipti innlent

Styttist í gegnumslag undir Húsavíkurhöfða

Kristján Már Unnarsson skrifar
Borun jarðganga undir Húsavíkurhöfða skotgengur samhliða stækkun Húsavíkurhafnar. Bærinn nötrar undan sprengingum og þungaumferð allan liðlangan daginn. Sýnt var frá framkvæmdunum í fréttum Stöðvar 2 og rætt við Snæbjörn Sigurðarson, verkefnisstjóra hjá Norðurþingi. 

„Hérna er verið að dýpka höfnina, verið að lengja hafnarkanta, stækka hafnarsvæðið og svo stærsta einstaka verkið er að leggja veg og veggöng sem tengja saman höfnina og iðnaðarsvæðið á Bakka," segir Snæbjörn. 

Norski verktakinn Leonhard Nilsen og sønner er þegar búinn að bora um 80 prósent ganganna. Aðeins eru um 140 metrar eftir. 

„Þannig að þetta er orðið einhverra vikna spursmál hvenær þeir slá í gegn. Það gæti orðið núna í ágúst eða í síðasta lagi í september.“ Og allt eins líklegt að það gæti orðið enn fyrr.

Þótt umfang framkvæmdanna við kísilmálmverksmiðjuna á Bakka sé mun meira er þetta ekkert smáræði. 

„Vegagerðin sjálf með hluta af hafnarframkvæmdunum er metin á rúma þrjá milljarða. Með hafnarframkvæmdum  og öðrum innviðum, sem þarf að gera hér, þá er þetta á fimmta milljarð sem þessar framkvæmdir kosta.“ 

Meðan iðnaðarlóðin á Bakka er í hvarfi tvo kílómetra frá byggðinni er hafnarsvæðið í hjarta Húsavíkur. 

„Og það er ónæði. Það er mikil þungaumferð þannig að óneitanlega hefur þetta ekki farið framhjá fólki. Það hafa verið sprengingar hér náttúrlega í göngum og líka hér í hafnargerðinni aðeins. Og hér er unnið myrkranna á milli, - og ekki mikið myrkur yfir sumarið, þannig að vinnudagurinn getur verið langur.

En heilt yfir eru menn jákvæðir gagnvart verkinu þannig að upplifunin í heild hefur verið jákvæð,“ segir Snæbjörn.

 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×