Viðskipti innlent

Stóru og meðalstóru fyrirtækin eflast frekar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hampiðjan er eitt af stærstu fyrirtækjunum innan sjávarklasans.
Hampiðjan er eitt af stærstu fyrirtækjunum innan sjávarklasans. Fréttablaðið/Anton
Velta tæknifyrirtækja í Sjávarklasanum jókst um 12 prósent á árinu 2015 og er nú um 60-65 milljarðar króna. Verkefni í fiskvinnslutækni um allan heim, stór verkefni innanlands í skipasmíðum og nýjum verksmiðjuhúsum eru áberandi.

Tæknigeiri Sjávarklasans á Íslandi samanstendur af 70-80 fyrirtækjum sem þróa, framleiða og selja tækja- og hugbúnað fyrir báta, skip og fisk- og matvælavinnslur. Fyrirtækin má flokka eftir sjö sérsviðum, það er fisk- og matvælavinnslutækni, kælitækni, umbúðir og kör, hugbúnaður, bátar, skipatækni og veiðarfæri.

Marel og Hampiðjan eru langstærst fyrirtækjanna og voru með samanlagða veltu í tengslum við sjávarútveg og fiskvinnslu upp á röska 20 milljarða króna á árinu 2015. Í úttekt Sjávarklasans segir að breytingar sem sjá megi hjá tæknifyrirtækjum Sjávarklasans séu helst tvenns konar. Stóru og meðalstóru fyrirtækin haldi áfram að eflast með sameiningu eða auknu samstarfi. Ástæða þessa er án efa sú staðreynd að umtalsverð stærðarhagkvæmni virðist í greininni. Stærri fyrirtæki eða samstarfsnet fyrirtækja hafa meiri möguleika á að efla markaðssókn og vöruþróun og bjóða heildarlausnir. Í öðru lagi séu stöðugt fleiri fyrirtæki innan Sjávarklasans að feta sig áfram í öðrum greinum matvælaiðnaðarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×