Innlent

Eigur eiganda Strawberries áfram kyrrsettar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Grunur leikur á um að eigandi Strawberries hafi brotið gegn skattalögum.
Grunur leikur á um að eigandi Strawberries hafi brotið gegn skattalögum. vísir/stefán
Hæstiréttur vísaði í dag kröfu eiganda kampavínsstaðarins Strawberries, þess efnis að úrskurðir um kyrrsetningar á nánar tilgreindum eignum yrðu felldir úr gildi, frá dómi. Kærufrestur málsins var liðinn.

Meðal þess sem hafði verið kyrrsett voru á annan tug bifreiða, bátur og þrjár fasteignir. Þá var þess einnig krafist að haldi yrði aflétt af bankareikningum sem innihéldu sex og hálfa milljón króna. Sömu sögu var að segja um tölvur, farsíma, posastrimla, harða diska og reiðufé.

Rannsókn lögreglunnar beindist upphaflega að meintri sölu og milligöngu vændis af hálfu forsvarsmanna fyrirtækisins. Þegar rannsókn hófst kviknaði grunur um að eigandi staðarins hefði gerst sekur um skattalagabrot og peningaþvætti.

Eigandi staðarins hefur áður látið reyna á hvort unnt sé að aflétta fyrrgreindum kyrrsetningum. Í fyrra hafnaði Hæstiréttur því þar sem rannsókn málsins átti að ljúka í byrjun þessa árs.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur nú var kveðinn upp 16. júní. Honum var áfrýjað af hálfu eigandans 29. júní síðastliðinn. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að kærufrestur sé þrír dagar og var málinu því vísað frá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×