Innlent

Þingmaður kallar eftir aðskilnaði ríkis og kirkju styðji hún presta Laugarneskirkju

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Brynjar Níelsson er ósáttur við prestana í Laugarneskirkju.
Brynjar Níelsson er ósáttur við prestana í Laugarneskirkju. Vísir
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er ósáttur við presta í Laugarneskirkju sem reyndu að hýsa hælisleitendur sem vísa átti úr landi. Segir hann að styðji yfirstjórn Þjóðkirkjunnar presta Laugarneskirkju sé „lítið annað að gera en að aðskilja ríki og kirkju.“

Laugarneskirkja var í lok síðasta mánaðar opnuð fyrir tveimur ungum írökskum hælisleitendum sem vísa átti úr landi. Átti að láta að reyna á hugmyndina um kirkjuna sem griðastað að fornum sið. Gekk það ekki eftir en lögregla flutti mennina úr kirkjunni og voru þeir sendir til Noregs á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Sjá einnig: Hælisleitendur dregnir út úr Laugarneskirkju í nótt

Á Facebook-síðu sinni segist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með að prestar í Laugarneskirkju „skyldu hafa frumkvæði að því að reyna að koma í veg fyrir að lögregla gæti framfylgt lögum í landinu með því að hýsa hælisleitendur sem vísað hafði verið frá landinu.“

Gagnrýnir hann einnig stuðning yfirstjórnar Þjóðkirkjunnar við presta Laugarneskirkju en Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, sagðist vera slegin yfir því hvað kirkjunni væri sýnd mikil óvirðing með aðgerðum yfirvalda í Laugarneskirkju.

„Ef stuðningur er hjá yfirstjórn kirkjunnar við framferði þeirra í Laugarneskirkju í þessu máli er lítið annað að gera en að aðskilja ríki og kirkju,“ segir Brynjar sem bendir á að vilji prestar berjast fyrir breytingu á lögum varðandi hælisleitendur þurfi þeir að berjast fyrir því á „markaðstorgi hugmyndanna.“

Birt var myndband af því þegar lögreglumenn drógu mennina út úr kirkjunni og vakti það hörð viðbrögð. Hafa prestar Laugarneskirkju ekki útilokað að láta reyna á kirkjuna sem griðast á ný.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×