Innlent

121 slasaðist í troðningnum eftir að sprenging heyrðist á aðdáendasvæðinu í París

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fjöldi Íslendinga var á svæðinu og mikil hræðsa greip um sig.
Fjöldi Íslendinga var á svæðinu og mikil hræðsa greip um sig. Vísir/EPA
121 einn slasaðist eftir að mikil hræðsla greip um sig á stuðningsmannasvæðinu við Eiffel-turninn í París í gær þegar slagsmál brutust út í kjölfar þess að flugeldar voru sprengdir inni á svæðinu. Fjöldi Íslendinga var þar samankominn.

Samkvæmt upplýsingum frá frönsku lögreglunni er talið að flestir hafi orðið fyrir minniháttar meiðslum en átján voru fluttir á sjúkrahús. 

Tjörvi Einarsson, íslenskur lögreglufulltrúi í París sem staðið hefur vaktina frá því að Evrópumótið hófst, hafði ekki heyrt um neinn Íslending sem hafi orðið fyrir meiðslum í troðningnum þegar Vísir náði tali af honum. Fjöldi Íslendinga var þó á svæðinu til þess að horfa á leik Þýskalands og Ítalíu þegar hræðslan greip um sig. 

Segir Tjörvi að tveir hafi verið handteknir eftir slagsmálin en ljóst sé að ótti hafi gripið um sig eftir að sprengingin heyrðist og því hafi fólk byrjað að troðast til þess að reyna að komast út af svæðinu.

Í gær ræddi Vísir við Íslending sem var á svæðinu sem sagði að mikil hræðsla hafi gripið um sig þegar sprengingin hafi heyrst. Fólk þusti út af svæðinu en hann segir reyk hafa lagst yfir og að fólki hafi verið mjög brugðið.

Í sama streng tekur Hallbera Gísladóttir, landsliðskona í knattspyrnu, sem var stödd á svæðinu í gærkvöldi. Segir hún að litlu hafi mátt muna að hún og félagar sínir yrðu undir í öllum æsingnum þegar mannfjöldinn reyndi að flýja svæðið. Það hafi lítið annað verið í stöðunni annað en að hlaupa af stað með mannfjöldanum.

Mörgum er eflaust í fersku minni hryðjuverkaárásirnar í París í nóvember síðastliðnum en gríðarlega öryggisgæsla í Frakklandi meðan á Evrópumótinu stendur. Þannig er leitað á öllum sem fara inn á aðdáendasvæðin en stranglega bannað er að fara með flugelda inn á svæðið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×