Erlent

Segir Tyrki vilja dauðarefsinguna aftur

Samúel Karl Ólason skrifar
Recep Tayyip Redogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Redogan, forseti Tyrklands. Vísir/EPA
Recep Tayyip Redogan, forseti Tyrklands, vill ekki útiloka að þúsundir þeirra sem hafa verið handteknir vegna aðildar að misheppnaða valdaráninu þar í landi á föstudaginn, eigi dauðarefsingu yfir höfði sér. Hann segir Tyrki vilja fá dauðarefsinguna aftur vegna fjölda hryðjuverkaárása sem hafa verið gerðar þar í landi.

Hann segir enn fremur að þingið þyrfti að framkvæma slíka breytingu á stjórnarskrá Tyrklands, en að hann myndi styðja hvaða ákvörðun sem tekin yrði. Þetta kemur fram í viðtali CNN við forsetann.

Um er að ræða fyrsta viðtal forsetans frá valdaráninu á föstudaginn.

Verði dauðarefsing tekin upp aftur í Tyrklandi munu þeir ekki geta gengið inn í Evrópusambandið samkvæmt utanríkisráðherra þess, Federica Mogherini.

Erdogan segir í viðtalinu að margir Tyrkir hafi misst fjölskyldumeðlimi, vini, nágranna og börn.

„Hvers vegna ætti að fæða þá og halda þeim í fangelsi um árabil? Það er það sem fólkið er að segja.“

Þúsundir hafa verið handteknir vegna valdaránsins og þar af eru 112 hershöfðingjar og aðmírálar. Samkvæmt Anadolu, sem er ríkisrekin tyrknesk fréttaveita, hafa minnst 8,777 manns sem vinna undir innanríkisráðuneyti Tyrklands verið reknir.

AP fréttaveitan segir hreinsanir stjórnvalda í Tyrklandi valda spennu á milli Tyrklands og bandamanna þeirra í vestri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×