Leyfi sem olíufélagið Shell fékk árið 1971 til rannsókna á hafsbotninum má telja upphaf olíuleitar við Ísland en fyrsta borunin var hins vegar á vegum íslenskra stjórnvalda, rétt við vitann á hæsta hluta Flateyjar, en setlög Skjálfandaflóa þóttu þá vænleg.

„Eyjarskeggjar voru náttúrlega mátulega ánægðir með þessa fyrirætlun og sáu það ekki fyrir sér að þessi paradís gæti orðið borpallur fyrir olíu. En þessu var nú ekki haldið til streitu mjög lengi. Menn fóru hérna niður á 534 metra, held ég. Þá brotnaði krónan og þá hættu menn,“ segir Stefán.
Til að ganga úr skugga um tilvist olíu eða gass í setlögunum var talið að bora þyrfti niður fyrir tvöþúsund metra dýpi, að því er fram kom í þingræðu Hjörleifs. En er hugsanlegt, ef borað yrði dýpra, að þá kæmi olíugos upp?
„Já, það er alveg hugsanlegt. En við viljum það ekki. Það er hægt að finna hana annarsstaðar.“
Þótt ekkert yrði af frekari borun gátu Þingeyingar þó gert grín að öllu saman.
„Jú, það vildi svo skemmtilega til að Dallas var sýnt í sjónvarpi landsmanna á þessum tíma. Þá voru gárungarnir með það, kölluðu Flateyinga gjarnan Ewingana á þessum tíma. Það þótti góður húmor.“

