Skoðun

Heilbrigðismál í forgang

Oddný Harðardóttir og Heiða Björg Hilmisdóttir skrifar
Allt er mögulegt í hópíþróttum með góðri liðsheild, undirbúningi og skipulagi eins og nýleg dæmi sanna. Það á líka við í stjórnmálum.

Við viljum bæta heilbrigðisþjónustuna og það er hægt ef pólitískur vilji er fyrir hendi. Verkefnið er flókið en skýr forgangsröðun, samtakamáttur og skipulag mun skila okkur betri stöðu á fáum árum. Fyrst og síðast þurfa stjórnvöld að afla tekna til að setja í heilbrigðisþjónustuna.

Á undanförnum vikum höfum við í Samfylkingunni heimsótt heilbrigðisstofnanir og stéttarfélög og öllum ber saman um að lítið sé að marka fögur fyrirheit stjórnvalda um aukið fjármagn í heilbrigðisþjónustuna. Kári Stefánsson lagði til að 11 prósentum landsframleiðslunnar yrði varið í heilbrigðisþjónustuna. Það er ekki fjarri lagi.

Slík hækkun núna myndi þýða að Landspítalinn hefði um 18 milljarða aukalega til að spila úr og gæti byggt upp mikilvæga þjónustu, mannað allar stöður og nútímavætt tæknibúnað sinn. Meirihluti landsmanna vill frekar verja almannafé í opinbera þjónustu heldur en einkarekstur og það viljum við líka.

Mikið hefur verið rætt um stöðu lækna á Íslandi, enda áhyggjuefni að ungir læknar snúi ekki aftur heim að loknu námi. Staða hjúkrunarfræðinga er ekki síður áhyggjuefni. Á næstu þremur árum komast um það bil 700-900 hjúkrunarfræðingar á eftirlaunaaldur.

Í staðinn útskrifast aðeins um 450 hjúkrunarfræðingar úr námi og margir þeirra munu velja sér önnur störf. Fækkun hjúkrunarfræðinga hefði víðtækari áhrif á næstu árum heldur en fækkun lækna, og það verður að finna leiðir til þess að fjölga í stéttinni.

Fleiri stéttir, sem konur fylla að mestu, þurfa jafnframt athygli stjórnvalda svo sem geislafræðingar, sjúkraþjálfarar og líftæknifræðingar. Það þarf að grípa til aðgerða nú þegar og efla háskólana á þessum sviðum.

Halda mætti að almenn sátt ríkti um þessi markmið en svo virðist ekki vera.

Í ríkisfjármálaáætlun stjórnvalda til næstu fimm ára er ekki að finna þá aukningu á fjárframlögum sem nauðsynleg er til að viðhalda núverandi ástandi, hvað þá til að bæta þjónustuna. Ef við ætlum að fá betri heilbrigðisþjónustu á næstu árum, verður ný ríkisstjórn að taka við sem skilur að heilbrigði er undirstaða velmegunar og hamingju.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×