Skoðun

Um háskólamenntun í tónlist – framsækið nám í söng

Þóra Einarsdóttir skrifar
Söng- og hljóðfæranám á bakka­lárstigi er meðal þeirra námsbrauta Listaháskóla Íslands, LHÍ, sem eru í stöðugri þróun. Ég hef starfað við tónlistardeild LHÍ að framþróun og uppbyggingu söngnáms síðastliðin ár. Áhersla á teymisvinnu kennara er að mínu mati lykilþáttur í því að skapa námssamfélag þar sem hver og einn nemandi hefur kost á að þroskast og blómstra sem sjálfstæður listamaður. Teymisvinna kennara hefur mjög færst í aukana í grunnskólum og teymisvinna þjálfara er þekkt í heimi íþróttanna. Teymisvinna kennara opnar námsferlið og stuðlar að frumkvæði og sjálfstæði nemenda, samtali og starfsþróun kennara.

Síðastliðin tvö ár hefur söngkennslan í LHÍ verið í höndum okkar Kristins Sigmundssonar og við höfum kennt í teymisvinnu. Auk þess hafa nemendur sótt söngtíma hjá þriðja söngkennaranum, Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur. Við teljum mikilvægt fyrir þroska listamanns að hann kynnist fjölbreyttum hugmyndum líkt og í öðru námi í háskólum þar sem vísindaleg nálgun felur í sér að málin eru skoðuð frá mörgum hliðum og í ljósi mismunandi kenninga. Að vissu leyti má segja að nemandinn sé tekinn út fyrir þægindi þess að leggja allt sitt traust á einn kennara. Þessi nálgun sem þykir framsækin er byggð á nýjustu rannsóknum á tónlistarnámi á háskólastigi. Þó að einkakennsla sé enn mikilvægur þáttur í menntun tónlistarflytjenda eru sífellt fleiri háskólar að leita leiða til þess að brjóta upp hinar hefðbundnu kennsluaðferðir sem hingað til hafa verið ríkjandi. Sérstaklega hefur ríkari áhersla verið lögð á teymisvinnu kennara og kennslu í hópum.

Tekur mið af breyttum veruleika

Í LHÍ gerum við okkur far um að vera sífellt að skoða og endurskoða námið og námsuppbyggingu með framþróun og hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Söng- og hljóðfæranámið við LHÍ tekur mið af breyttum veruleika hvað varðar starfsvettvang tónlistarmanna, en aðeins lítil prósenta söng- og hljóðfæraleikara fær atvinnu eða fasta stöðu við sinfóníuhljómsveitir eða óperuhús. Flestir sinna fjölbreyttum störfum á sviði tónlistar. Mikil áhersla er lögð á samspil, kammertónlist og kórsöng, spuna og aðra skapandi vinnu í hópum í LHÍ. Að söngnáminu koma stundakennarar auk fjölda erlendra og innlendra kennara. Nemendur fá mikla þjálfun í sviðsframkomu þar sem þeir fá mörg tækifæri til að koma fram. Samstarf við Íslensku óperuna hefur veitt nemendum innsýn í æfingaferli óperu, þeir hafa tekið þátt í skapandi kynningarstarfi og jafnvel æft og sungið hlutverk við óperuna.

Þó að óperudeildir við erlenda háskóla séu yfirleitt á meistarastigi má vel vinna með óperuformið fyrr. Þannig fá nemendur nauðsynlega þjálfun í leiklist og sviðsframkomu. Óperur geta verið með ýmsu sniði. Það skemmtilega við óperuformið er hversu teygjanlegt það er, eins og Atli Ingólfsson bendir á í nýlegri grein sinni í Skírni. Sennilega er ein mest spennandi áskorun ungra söngvara að takast á við óperuformið og kanna nýjar leiðir jafnt því sem þeir dýpka þekkingu sína á sögu óperunnar og hefðum. Söngnemendur við LHÍ vinna senur úr óperum og fást við óperuformið á fjölbreyttan hátt. Aukin áhersla er nú á leiklistarnám og framburðar- og hljóðfræði og auk kjarna fræðigreina eru nemendur í sértækri kennslufræði og spuna.

Mikil aðsókn er í söngnám við LHÍ og færri komast að en vilja. Nemendur sem sækja um í söngdeildina koma víðsvegar að; frá tónlistarskólum um allt land og bera þeir þeirri kennslu sem þar fer fram gott vitni og sýna að hæfileikaríka nemendur og hæfa kennara er víða að finna.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×