Íslenski boltinn

Markvörður FH fékk skráð á sig mark | Dómarinn skoðar vonandi þetta myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Samsett mynd
FH-konur skoruðu langþráð mark í síðasta leik sínum í Pepsi-deild kvenna í fótbolta en það dugði þó ekki til sigurs á móti Fylki.

Það vakti hinsvegar athygli hver fékk markið skráð á sig hjá dómara leiksins sem var annaðhvort ekki að fylgjast með eða gerði stór mistök þegar hann fór yfir leikskýrsluna.

Dómarinn skráði nefnilega þetta mark FH-liðsins á Jeannette J Williams sem er markvörður FH-liðsins eins og sjá má á þessari mynd hér fyrir neðan af staðfestri leikskýrslu leiksins inn á ksi.is.

Markið hjá FH-liðinu kom eftir hornspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks og náðu Fylkiskonur varla að byrja leikinn áður en flautað var til hálfleiks.

Þetta var merkilegt mark enda voru FH-konur þarna ekki búnar að skora í 391 mínútu í Pepsi-deildinni.

Þetta var líka fyrsta markið sem hin átján ára gamla Ingibjörg Rún Óladóttir skorar í Pepsi-deildinni en hún var þarna að spila sinn sjötta leik í sumar.

FH-liðið er ungt og yngstu stelpurnar hafa séð um að skora mörk liðsins í Pepsi-deildinni í sumar. Ingibjörg Rún Óladóttir er fædd árið 1998 en hinir tveir markaskorarar FH-liðsins í sumar eru fæddar árið 2000 (Guðný Árnadóttir) og 2001 (Karólína Lea Vilhjálmsdóttir).

Markið skoraði Ingibjörg Rún með þrumuskalla eftir hornspyrnu og eins og sjá má í myndbandinu af markinu hér fyrir neðan þá er markvörðurinn Jeannette J Williams hvergi sjáanleg enda væntanlega inn í vítateignum hinum megin á vellinum.

Það er leiðinlegt að Ingibjörg Rún fái ekki þetta fyrsta mark skráð á sig og við mælum með að dómari leiksins skoði einnig myndbandið hér fyrir neðan og sannfærist um leið um það að þetta mark eigi að vera skráð á Ingibjörgu Rún.

Mark FH í leik á móti Fylki í 7. umferð Pepsi-deildar kvenna



Fleiri fréttir

Sjá meira


×