Erlent

Streymdu yfir landamæri Kólumbíu í þúsundatali

Samúel Karl Ólason skrifar
Áætlað er að 35 þúsund manns hafi farið yfir landamærin.
Áætlað er að 35 þúsund manns hafi farið yfir landamærin. Vísir/EPA
Tugir þúsunda íbúa Venesúela fóru yfir landamæri Kólumbíu til að verða sér út um matvæli og aðrar nauðsynjar. Landamærin voru opnuð í gær í fyrsta sinn í tæpt ár. Embættismenn í Kólumbíu telja að um 35 þúsund manns hafi komið yfir landamærin.

Efnahagsástandið í Venesúela hefur farið mjög versnandi og mikill skortur er á nauðsynjum þar í landi.

Landamærunum hafði verið lokað í ágúst í fyrra, en þá sögðu yfirvöld í Venesúela að það væri gert til að sporna gegn smygli og glæpum. Opnunin í gær stóð yfir í hálfan sólarhring og voru landamærin opnuð í bænum Cucuta.

Í síðustu viku brutu um 500 konur sér leið í gegnum landamærin. Vegna mikillar verðbólgu í Venesúela greyddu konurnar þó um tíu sinnum hærra verð í Kólumbíu en opinbert verð er fyrir vörur eins og klósettpappír í Venesúela. Vörurnar eru hins vegar að mestu hvergi til þar í landi og ef þær má finna einhversstaðar er verðið margfallt hærra en opinbert verð.

Sjá einnig: Sjálf­skapar­víti Venesúela: Sósíalíska draumaríkið sem kollvarpaðist í martröð

Íbúar Venesúal eiga margir hverjir í vandræðum með að fæða fjölskyldur sínar og hefur glæpatíðni hækkað gífurlega á síðustu mánuðum.

Verðbólga í landinu, sem í gegnum tíðina hefur verið nokkuð stabíl í tuttugu prósentum, er nú 180 prósent og hefur hækkað úr 76 prósentum frá upphafi árs í fyrra. Til samanburðar fór hún hæst í rúm hundrað prósent í efnahagskreppu níunda áratugar síðustu aldar og í um 110 prósent á miðjum tíunda áratugnum. Ekki sér fyrir lokin á vandræðum Venesúela.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×