
„Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sýnist mér vera að reyna að bjarga sínu pólitíska lífi og notar til þess allar aðferðir. Það er hins vegar þannig að kannski eru þau meðöl ekki best fyrir flokkinn hans. Aftur á móti sýnist mér Sigurður Ingi Jóhannsson vera á þeirri leið að hugsa um hag flokksins og efna loforðið um kosningar,“ segir Grétar Þór.
Grétar Þór segir líklegt að ef fram heldur sem horfir gæti Framsóknarflokkurinn verið að loka dyrum fyrirfram að hugsanlegu ríkisstjórnarsamstarfi. Einnig telur hann líklegra að Framsóknarflokkurinn nái inn í ríkisstjórn með Sigurð Inga í forystu en Sigmund Davíð. „Það er greinilega mikill merkingarmunur á orðum Bjarna og Sigmundar Davíðs. Einnig ef Framsóknarflokkurinn ætlar sér að vinna til vinstri í næstu ríkisstjórn sýnist mér mun meiri þíða vera í samskiptum við minnihlutann á þingi eftir að Sigurður Ingi tók við stjórnartaumum í ríkisstjórn. Því er líklegra að stjórnarandstaðan vilji tala við Sigurð Inga fremur en Sigmund Davíð sem kemur laskaður til kosninga.“

Bjarni Benediktsson var spurður um loforð flokkanna um kosningar í haust þegar hann mætti á ríkisráðsfund í gærmorgun. „Þegar við endurnýjuðum samstarfið í vor boðuðum við á sama tíma að við ætluðum að ljúka nokkrum málum og boða svo til kosninga,“ sagði Bjarni og taldi það mikilvægt að allir ættu að standa við þessi loforð. „Mér finnst það skipta máli, sérstaklega eftir atburði vorsins, að það sé ekki mikill hringlandaháttur með þessa hluti og ég hef lagt á það áherslu að við stöndum við þessi efni um kosningar í haust.“
Bjarni var einnig spurður að því hvort ekki væri best að setja niður kjördag sem fyrst. Játti hann því og sagði það skipta máli fyrir lýðræðið í landinu. Einnig sagði hann kannski orðið tímabært að hann ætti fund með formanni Framsóknarflokksins vegna orða hans í fjölmiðlum.
„Ég er fyrir það að það sé einhver stjórnfesta í þessu landi,“ sagði Bjarni í þann mund er hann gekk inn á síðasta ríkisráðsfund undir stjórn Ólafs Ragnars Grímssonar.
Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu.