Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands tilkynnti í dag um samning við ríkisstjórnina sem felur í sér gríðarlega aukningu fjárveitingu ríkisins til afrekssjóðs ÍSÍ sem mun fjórfaldast á næstu þremur árum.
Framlagið mun hækka í áföngum úr 100 milljónum króna í 400 milljónir króna fyrir árið 2019. Þetta eru tímamót fyrir íþróttahreyfinguna á Íslandi og algjör bylting fyrir íþróttastarf hér heima.
Þetta var tilkynnt á fjölmennum fréttamannafundi í Laugardalnum í dag þar sem íþróttamenn frá öllum sérsamböndum ÍSÍ stilltu sér upp fyrir aftan Illuga Gunnarsson, mennta- og íþróttamálaráðherra, Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson forsætisráðherra auk forseta og framkvæmdastjóra ÍSÍ, þau Lárus Inga Blöndal og Líney Rut Halldórsdóttur.
Fjórfaldast á fjórum árum
Afrekssjóðurinn fékk 100 milljónir frá ríkisstjórninni á síðasta ári sem var það mesta í sögunni. Framlagið var 55 milljónir árið 2013 en hefur hækkað um 45 milljónir síðan þá.
Afrekssjóðurinn nemur 200 milljónum króna á næsta ári. Hann hækkar í 300 milljónir árið 2018 og verður 400 milljónir árið 2019 sem fyrr segir vegna aukins framlags ríkisins.
„Þetta verður algjör bylting fyrir okkur hjá ÍSÍ sem höfum haft úr allt of litlu að spila til að aðstoða sérsamönd ÍSÍ og þá afreksfólkið til að það geti helgað sig íþrótt sinni og náð sem bestum árangri,“ segir Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, um þennan tímamótasamning ÍSÍ og ríkisstjórnarinnar.

