Erlent

Hillary Clinton forsetaefni demókrata: „Stærsta sprungan í glerþakið til þessa“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Clinton ávarpaði flokksþingið frá New York.
Clinton ávarpaði flokksþingið frá New York. AFP/Vísir
Hillary Rodham Clinton er frambjóðandi Demókrataflokksins til forseta Bandaríkjanna. Tilnefning Clinton var staðfest á flokksþingi demókrata í Fíladelfíu í nótt.

„Þvílíkur heiður sem þið hafið veitt mér. Við höfum gert stærstu sprunguna í glerþakið til þessa“ sagði Clinton í beinni útsendingu frá New York. „Ef einhverjar litlar stelpur vöktu seint til að horfa langar mig að segja að ég gæti orðið fyrsti kvenforseti Bandaríkjanna en einhver ykkar er næst.“

Samkvæmt dagskrá þingsins heldur Clinton ræðu á fimmtudag.

Eiginmaður Hillary og fyrrum forseti Bandaríkjanna, Bill Clinton, ávarpaði flokksþingið í nótt og hélt ræðu eiginkonu sinni til stuðnings. Stiklaði hann á stóru um afrek Hillary og sagði jafnframt söguna af hvernig hjónin kynntust árið 1971 í kennslustund um mannréttindi.

Bill lagði áherslu á að sú mynd sem repúblikanar hafa málað af henni sé ekki rétt og biðlaði til kjósenda að hafa það hugfast. „Hillary mun gera okkur sterkari saman. Þið vitið það vegna þess að hún hefur varið ævi sinni í að gera einmitt það," sagði hann meðal annars.

Þetta er í fyrsta skipti sem kona er frambjóðandi eins stóru flokkanna til forseta en þó ekki í fyrsta skipti sem kona býður sig fram til forseta Bandaríkjanna. Konur hafa áður boðið sig fram fyrir hönd minni flokka.

Samantekt CNN af fundi gærdagsins má sjá hér:





Ávarp Hillary til þingsins í nótt:



Ræða Bill Clinton í heild sinni:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×