Erlent

Sonboly skipulagði árásina í heilt ár

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn átján ára Ali David Sonboly, sem varð níu manns að bana í og í kringum verslunarmiðstöð í München á föstudag, skipulagði árásina í heilt ár.

Talsmaður þýskra lögregluyfirvalda greindi frá því í dag að vísbendingar þessa efnis hafi fundist. Þá var greind frá því að hann hafi verið lagður inn á geðdeild fyrir ungmenni í tvo mánuði vegna andlegra veikinda sinna en hann hafði glímt við þunglyndi.

Sonboly notaðist við 9mm Glock skammbyssu og var búinn alls um þrjú hundruð skotum og fyrirfór sjálfum sér eftir að hafa banað níu og sært 35 til viðbótar, þar af tíu alvarlega.

Lögregluyfirvöld í Bæjaralandi segir að hann hafi komist yfir skammbyssuna með ólögreglum hætti á netinu.

Fjölmargar minningarathafnir hafa farið fram í München og víðar í dag og í gær til að minnast hinna látnu.

Fórnarlömb árásarinnar voru flest á táningsaldri, þrjú frá Kósóvó, þrjú frá Tyrklandi og einn frá Grikklandi.

Í frétt BBC kemur fram að svo virðist sem fórnarlömbin virðast ekki hafa verið sérstaklega valin og voru ekki bekkjarfélagar árásarmannsins.

Áður hafði komið fram að ekkert hafi fundist á heimili Sonboly sem benti til tengsla við hryðjuverkasamtökin ISIS, en hins vegar hafi fundist fjöldi dagblaðagreina um skotárásir í skólum. Einnig fannst bókin Amok in Kopf – warum schuler töten sem fjallar um ástæður þess af hverju nemendur ákveða að drepa aðra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×