Erlent

Dregin buxnalaus fyrir dómara eftir þrjá daga í varðhaldi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þeldökk kona frá Kentucky hafði verið án buxna og hreinlætisvara í þrjá daga þegar hún var leidd fyrir dómara í Lousville í gær. Sagt er frá af Huffington Post en myndband af atvikinu í heild sinni má finna hér fyrir neðan.

„Ég er ekki að reyna að niðurlægja þig. Mér þykir þetta mjög leitt,“ segir dómari málsins, Amber Wolf, á upptökunni. „Getum við fundið eitthvað handa henni? Hvað sem er. Bara eitthvað. Það skiptir ekki máli hvað það er.“

Wolf hóf í kjölfarið að hringja í yfirmenn fangelsisins, þar sem konan hafði verið í haldi, til að fá útskýringar á málinu. „Hvað í fjandanum gengur hér á?“ heyrist Wolf meðal annars segja.

Haft er eftir talsmanni fangelsisins að konan hafi ekki dvalist þar nógu lengi til að fá föt þaðan. Áður en hún var leidd fyrir dómara var hafði hún verið í haldi í þrjá daga. Að sögn fangavarða var hún klædd í stuttbuxur sem voru afar stuttar. Konan hafði ítrekað beðið um að fá buxur til að klæðast.

Konunni sem um ræðir var gefið að sök að hafa rofið skilorð. Hún hafði áður gerst sek um minniháttar þjófnaðarbrot. Hún var dæmd til að greiða hundrað dollara í sekt.

„Það að þú hafir verið handtekin er þín sök og þú verður að koma fyrir dómara. Allt hitt er algjörlega ómannúðlegt og óásættanleg og mér þykir mjög miður að þú hafir þurft að ganga í gegnum þetta,“ segir Wolf.

Myndband af þessu má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×