Erlent

Miklir skógareldar ógna íbúum á Madeira

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Madeira.
Frá Madeira. Vísir/AFP
Um fjögur hundruð manns hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín og 174 hafa þurft að leita sér læknisaðstoðar vegna mikilla skógarelda sem geisa nú á portúgölsku eyjunni Madeira undan strönd norðvestur Afríku.

Slökkviliðsmenn hafa nú að mestu náð tökum á eldunum og er búist við að svalara veður næstu daga komi til með að aðstoða þá við slökkvistarf.

Héraðsstjórinn Miguel Albuquerque segir að flestir þeir sem hafa þurft að leita til læknis glími við reykeitrun, en að einn haft særst alvarlega vegna mikilla brunasára.

Í frétt NBC er haft eftir Albuquerque að 27 heimili hafi eyðilagst í skógareldunum á Madeira.

Portúgölsk yfirvöld glíma einnig við skógarelda á meginlandinu þar sem sjö þeirra geisa stjórnlaust.

Um fjögur þúsund portúgalskir slökkviliðsmenn glíma við eldana í landinu, en veðurfar hefur verið þurrt síðustu vikurnar og vindar miklir sem skapað hafa kjöraðstæður fyrir útbreiðslu skógarelda í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×