Erlent

Erdogan styrkir stöðu sína í Tyrklandi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
„Þið eruð öll hetjur,“ sagði Recep Tayyip Erdogan við mannfjöldann sem kom til að sýna stjórn hans stuðning á útifundi í Istanbúl á sunnudag.

Tilefnið var valdaránstilraunin 15. júlí, sem brotin var á bak aftur ekki síst vegna þess að fjöldi fólks varð við áskorun Erdogans um að halda út á götur til að sýna andstöðu sína við valdarán.

„Þið ættuð að vera stolt af ykkur. Hvert og eitt einasta ykkar barðist fyrir frelsi og lýðræði,“ sagði Erdogan, greinilega harla ánægður með þjóð sína.

Tveir af þremur flokkum stjórnarandstöðunnar á þingi stóðu að útifundinum ásamt stjórnarflokki Erdogans forseta.

Þetta er haft til marks um mikla og líklega einstæða samstöðu bæði þings og þjóðar um Erdogan og stjórn hans gegn þeim sem stóðu að valdaránstilrauninni.

Kemal KiliÇdaroglu, leiðtogi sósíaldemókrata og forystumaður stjórnarandstöðunnar, segir valdaránstilraunina misheppnuðu hafa hjálpað stjórn og stjórnarandstöðu að ná saman. „Það er komið nýtt Tyrkland eftir 15. júlí,“ er haft eftir honum á vef arabísku fréttastöðvarinnar Al Jazeera.

Fjórða flokknum á þingi var þó ekki boðið að vera með, en það er Kúrdaflokkurinn HDP, enda þótt flokkur Kúrda hafi lýst yfir afdráttar­lausri andstöðu við valdaránstilraunina.

Trúarhreyfingin en ekki klerkurinn sjálfur

Erdogan og samstarfsmenn hans saka þingmenn flokksins um að styðja Kúrdahreyfinguna PKK, sem flokkuð er undir hryðjuverkasamtök í Tyrklandi vegna baráttu hennar fyrir réttindum Kúrda. Sú barátta hefur harðnað á ný síðustu misserin með vopnuðum bardögum, loftárásum stjórnarhersins og jafnvel hryðjuverkum í helstu borgum landsins.

Fyrri valdaránstilraunir í Tyrklandi, sem flestar hafa heppnast, hafa verið runnar undan rifjum hersins og kemalistahreyfingarinnar, sem hefur viljað tryggja aðskilnað trúar og stjórnmála í Tyrklandi í anda Kemals Atatürks, stofnanda tyrkneska lýðveldisins.

Að þessu sinni segir Erdogan það hins vegar hafa verið trúarhreyfingu klerksins Fethullah Gülen sem reyndi að steypa stjórninni.

Tugir þúsunda hafa verið handteknir eða reknir úr störfum þær þrjár vikur rúmar sem liðnar eru frá valdaránstilrauninni, flestir sakaðir um að vera liðsmenn í hreyfingu Gülens. Þar á meðal eru herforingjar, lögreglumenn, dómarar, kennarar og fréttamenn.

Gülen sjálfur býr í Bandaríkjunum í sjálfskipaðri útlegð. Erdogan vill fá hann framseldan til Tyrklands, en hefur enn ekki gefið út formlega framsalsbeiðni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×