Erlent

Japanskeisari vill afsala sér tign

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Ekki var um eiginlega afsögn keisarans að ræða, enda eru lagabreytingar nauðsynlegar svo hann geti hætt. Sjálfur má hann ekki krefjast lagabreytinga.
Ekki var um eiginlega afsögn keisarans að ræða, enda eru lagabreytingar nauðsynlegar svo hann geti hætt. Sjálfur má hann ekki krefjast lagabreytinga. vísir/epa
Akihito Japanskeisari ávarpaði japönsku þjóðina í sjónvarpi í morgun, en það var hans annað ávarp á ferlinum. Hann gaf sterklega til kynna að hann vildi afsala sér keisaratign sökum hækkandi aldurs og hrakandi heilsu, en japönsk lög gera þó ekki ráð fyrir að keisari geti það. 

Akihito, sem er 82 ára, hefur verið nokkuð heilsuveill undanfarin á rog hefur meðal annars undirgengist opna hjartaaðgerð og barist við krabbamein. Sagðist hann því óttast að heilsa hans muni brátt hafa áhrif á hlutverk hans.

Þar sem lög gera ekki ráð fyrir að keisari geti afsalað sér tign þyrfti að breyta lögunum. Því var ekki um eiginlega afsögn Akihito að ræða, enda má hann ekki krefjast lagabreytinga. Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, sagði hins vegar í ræðu sinni, sem var flutt í kjölfarið af ávarpi keisarans, að stjórnvöld muni ræða lagabreytingar af fullri alvöru.

Samkvæmt skoðanakönnunum í Japan myndi stærstur hluti almennings, eða um 85 prósent, styðja ákvörðun Akihito um að hætta. Fari svo að hann geri það verður það í fyrsta skipti í nærri 200 ár, eða frá árinu 1817, sem Japanskeisari lætur sjálfur af störfum.

Nánar um málið á fréttavef BBC.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×