Erlent

Áhyggjufullir Grikkir vilja plan B fyrir Tyrklandssamninginn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Flóttafólk flutt í lögreglufylgd aftur til Tyrklands frá Grikklandi.
Flóttafólk flutt í lögreglufylgd aftur til Tyrklands frá Grikklandi. vísir/epa
„Við höfum miklar áhyggjur,“ segir Jannis Mouzalas, innflytjendaráðherra grísku stjórnarinnar, í viðtali við þýska dagblaðið Bild. „Í öllu falli þurfum við plan B.“

Hann er þarna að tala um samninginn sem Evrópusambandið gerði fyrr á árinu við Tyrkland um flóttafólk. Mikil óvissa hefur frá upphafi ríkt um þennan samning, og sú óvissa hefur magnast verulega eftir að stjórnarbyltingartilraun fór út um þúfur í Tyrklandi í síðasta mánuði.

Samningurinn gengur út á það að Tyrkir taki aftur við flóttafólki frá Sýrlandi sem reynir að komast frá Tyrklandi til Grikklands og þaðan áfram til Evrópu. Í staðinn hét Evrópusambandið því að greiða Tyrkjum milljarða evra og sjá til þess að Tyrkir þurfi ekki vegabréfsáritun til að ferðast til ESB-landa.

Tyrki er nú tekið að lengja eftir því að ESB aflétti kröfunni um vegabréfsáritun. Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, krefst þess að það verði gert ekki síðar en í október. Að öðrum kosti verði ekkert frekar úr þessum samningi sem gerður var í mars.

Sigmar Gabriel, varakanslari Þýskalands og leiðtogi þýska Sósíal­demókrataflokksins, vísar slíkum þrýstingi frá Tyrkjum á bug: „Þýskaland eða Evrópa má alls ekki láta kúga sig.“

Mannréttindafulltrúi þýsku ríkisstjórnarinnar, Bärbel Kofler, segir varhugavert að treysta tyrkneskum stjórnvöldum þessa dagana: „Í ljósi þess hvernig mál eru að þróast í Tyrklandi núna þá verðum við hugsa hlutina upp á nýtt. Við verðum að endurmeta flóttamannasamning ESB og Tyrklands,“ er haft eftir henni í umfjöllun á fréttavef þýska vikuritsins Der Spiegel.

Frá því valdaránstilraunin var brotin á bak aftur fyrir rúmlega hálfum mánuði hafa tugir þúsunda manna verið handteknir eða reknir úr starfi í Tyrklandi, þar á meðal hermenn, lögreglumenn, dómarar, kennarar og blaðamenn.

Grísk stjórnvöld segja reyndar ekkert benda til þess að Tyrkir standi ekki við sinn hluta flóttamannasamkomulagsins. Kofler, fyrrnefndur mannréttindafulltrúi þýsku stjórnarinnar, segir hins vegar að mörgu sé ábótavant í framkvæmd samningsins af hálfu Tyrklands.

„Sem stendur er engu hægt að taka sem gefnu í Tyrklandi,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×