Erlent

Chelsea Manning dæmd í 14 daga einangrun vegna sjálfsmorðstilraunar

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Manning afplánar dóm í Fort Leavenworth herfangelsinu í Kansas.
Manning afplánar dóm í Fort Leavenworth herfangelsinu í Kansas. vísir/afp
Chelsea Manning hefur verið dæmd til fjórtán daga einangrunarvistar vegna sjálfsmorðstilraunar sem hún reyndi í júlí og fyrir að hafa haft ómerkta bók í fangaklefa sínum.

Manning var dæmd í 35 ára fangelsi árið 2013 fyrir að hafa lekið hundruð þúsundum gagna um hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna í Írak og Afganistan til WikiLeaks. Hún afplánar dóm sinn í Fort Leavenworth fangelsinu í Kansas en það er fangelsi fyrir hermenn sem hafa brotið af sér. Fangelsisyfirvöld gáfu Manning það að sök að hafa með sjálfsmorðstilraun sinni spillt þeim góða aga sem ríkir í fangelsinu.

Manning er transkona en hefur ekki enn gengist undir kynleiðréttingaraðgerð. Hún hóf hormónameðferð innan veggja fangelsisins fyrir um einu og hálfu ári og fékk í síðustu viku fregnir þess efnis að herinn hefði veitt henni leyfi til þess að gangast undir aðgerð. Henni hafði um langt skeið verið neitað aðgerð en fékk loks grænt ljós eftir fimm daga hungurverkfall fyrr í mánuðinum. 

Fékk aðeins klukkustund til þess að undirbúa sig

Manning, sem er reglulegur pistlahöfundur The Guardian, tjáði sig um málið í pistli á þriðjudag. Hún gagnrýndi meðal annars verklag fangelsisyfirvalda við refsinguna. Manning þurfti að undirbúa varnarræðu sem hún flutti fyrir stjórnina áður en hún tók ákvörðun um einangrunarvistina en fékk aðeins klukkustund til þess að líta yfir meira en hundrað blaðsíðna skýrslu um brot hennar. Hún fékk ekki að ráðfæra sig við lögmann vegna málsins.

Þegar Manning blaðaði í gegnum skýrsluna sá hún jafnframt ljósmynd af sjálfri sér sem tekin var skömmu eftir sjálfsmorðstilraunina. „Þessi mynd truflaði mig. Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Hún kvaldi mig meira en allar þær líkamlegu þjáningar og harðræði sem ég upplifað,“ skrifaði Manning í pistlinum.

Manning hefur þurft að þola miklar raunir frá því hún hóf afplánun sína 2013. Henni hefur meðal annars verið meinuð læknisaðstoð, henni hefur verið hótuð einangrunarvist og var refsað fyrir að hafa haft útrunnið tannkrem í klefa sínum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×