Lífið

Fetar Hafþór í fótspor fyrirrennaranna?

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hafþór vonast til þess að komast í hóp með Jóni Páli og Magnúsi Ver.
Hafþór vonast til þess að komast í hóp með Jóni Páli og Magnúsi Ver. Vísir
Kraftajötuninn Hafþór Júlís Björnsson tekur nú þátt í úrslitakeppni keppninnar um sterkasta mann heims sem fram fer í Botswana. Keppt er í dag og á morgun og kemur þá í ljós hvort að Hafþóri takist að feta í fótspor Jóns Páls Sigmarssonar og Magnúsar Vers Magnússonar og koma með titilinn heim til Íslands.

Keppni hófst í morgun en í dag er keppt í þrjátíu metra rammaburði, sirkúslyftu og réttstöðulyftu. Samkvæmt heimildum Vísis er Hafþór í toppformi en hann flaug í gegnum undanrásir með því að sigra sinn riðil með yfirburðum og setti hann meðal annars heimsmet í kútakasti í leiðinni.



Keppinautar Hafþórs eru þó engir aukvissar en í úrslitum eru meðal annars Bandaríkjamaðurinn Bryan Shaw, sem vann keppnina í fyrra og hefur alls unnið keppnina í þrígang. Keppninni lýkur á morgun þegar keppt verður í þremur síðustu greinunum.

Hafþór hefur verið afar nærri því að sigra í keppninni undanfarin fjögur ár en hann hefur alls keppt fimm sinnum, þrisvar lent í þriðja sæti og einu sinni í öðru sæti.

Sigurhefð Íslendinga er mikil í keppninni um sterkasta mann heims en Jón Páll Sigmarsson vann keppnina á árunum 1984, 1986, 1988 og 1990 áður en að Magnús Ver tók við kyndlinum og sigraði í keppninni 1991, 1994, 1995 og 1996 en tuttugu ár eru síðan Íslendingur var krýndur sterkasti maður heims.

Rifja má upp afrek Jóns Páls og Magnúsar Vers í myndböndunum hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×