Viðskipti innlent

Sérfræðingur frá Netflix heldur námskeið á Íslandi

Tinni Sveinsson skrifar
Brian Holt býr til viðmótið sem mætir notendum þegar þeir horfa á eða leita að efni á Netflix.
Brian Holt býr til viðmótið sem mætir notendum þegar þeir horfa á eða leita að efni á Netflix.
„Það er ekki oft sem svona reynsluboltar koma til Íslands. Það er einstakt tækifæri fyrir áhugasama að sækja þessi námskeið,“ segir Benedikt D Valdez Stefánsson, stjórnarmaður í Samtökum vefiðnaðarins.

Samtök vefiðnaðarins (SVEF) bjóða í næstu viku upp á öflugar heilsdagsvinnustofur með Brian Holt, viðmótssérfræðingi frá Netflix, og Vitaly Friedman, aðalritstjóra Smashing Magazine, sem er virt tæknitímarit á netinu. Þeir verða með sitthvort námskeiðið þar sem þeir miðla af þekkingu sinni og reynslu á sviði vefverkefna í víðum skilningi.

Námskeiðin eru haldin í samstarfi við skipuleggjendur ráðstefnunnar JSConf Iceland, sem haldin verður í Hörpunni 25. - 26. ágúst. Þar koma þeir Holt og Friedman einnig fram en alls verða 36 erlendir fyrirlesarar á ráðstefnunni.

Benedikt D. Valdez Stefánsson er stjórnarmeðlimur SVEF og forritari með meiru hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Kolibri.
„Eitt af helstu markmiðum SVEF er einmitt að miðla þekkingu og efla fagleg vinnubrögð í vefiðnaðinum, og eru þessar vinnustofur enn einn liðurinn í því“ segir Benedikt en allir hagnaður af námskeiðum sem þessum fer í að fjármagna starf vetursins þar sem haldnir verða viðburðir í hverjum mánuði fyrir alla sem hafa áhuga á að fræðast og blanda geði við bransann.

Vinnustofurnar eru fjölbreyttar og henta fjölmörgum hópum, en eru sérstaklega kjörin fyrir vefhönnuði, forritara og aðra sem vinna náið með vefiðnaðinum.

Vinnustofan með Brian er sérstaklega gagnleg fyrir bæði reynda forritara sem vilja bæta í reynslubankann sem og forritara sem eru jafnvel nýkomnir út á vinnumarkaðinn, en hann mun taka á tveimur heitustu málum forritunarheimsins undanfarið, ES6 og React.

Vinnustofan með Vitaly er svo hugsuð fyrir reyndari vefhönnuði og forritara sem þekkja grunn hugmyndir um skalanlega vefhönnun og -forritun, en þar verður farið í flóknari tækni og leiðir á þeim sviðum.

„Okkur fannst mikilvægt að reyna að finna eitthvað við hæfi sem flestra, enda er vefiðnaður gífurlega fjölbreyttur hópur. Síðar í vetur stefnum við á að bjóða upp á fleiri vinnustofur fyrir enn breiðari hóp, líkt og vefstjóra, teymisþjálfara o.s.frv.“ segir Benedikt.

Vinnustofurnar fara fram á Icelandair Hótel Natura, miðvikudaginn 24. ágúst næstkomandi. Á vef samtakanna er hægt að nálgast miða á bæði viðburðinn með Brian Holt og viðburðinn með Vitaly.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×