Innlent

Brynjar um Eygló: „Með súkkulaði út á báðar kinnar allt kjörtímabilið“

Atli Ísleifsson skrifar
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Vísir/Anton/Vilhelm
„Sá sem fékk þó stærsta hluta kökunnar og hefur verið með súkkulaði út á báðar kinnar allt kjörtímabilið vildi meira og gat því ekki stutt málið. Í mínu ungdæmi var þetta kallað að vera stíflaður af frekju,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í færslu á Facebook-síðu sinni.

Vísar hann þar til ákvörðun Eyglóar Harðardóttur, félags-og húsnæðismálaráðherra, um að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um fjármálastefnu og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Segir hann að fullyrða megi að allir ráðherrar í ríkisstjórninni hefðu viljað fá í ríkisfjármálaáætlun meira fé í sína málaflokka.

Eygló og Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sátu hjá við afgreiðslu stjórnarfrumvarpa í gær sem vörðuðu fjármálastefnu 2017 til 2021 og fjármálaáætlun sömu ára.  Bæði málin voru þó samþykkt, hið fyrra með 29 atkvæðum gegn sautján en tveir sátu hjá og hið síðara með 29 atkvæðum gegn fjórtán þar sem sex sátu hjá. 

Brynjar er ekki fyrsti stjórnarþingmaðurinn til að gagnrýna Eygló en Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði ákvörðun Eyglóar um að sitja hjá ekki boðlega ráðherra í ríkisstjórn.

Eygló gerði grein fyrir atkvæði sínu varðandi fjármálastefnuna: „Sú vinna sem ég hef verið að vinna hefur verið í samræmi við þann stjórnarsáttmála. Hér erum við hins vegar að tala um næsta kjörtímabil. Það liggur ekki fyrir neitt samkomulag um það með hvaða hætti á að standa að því samstarfi ef það verður og ég hef látið vita af þessum fyrirvara mínum í gegnum allt þetta mál að það sé ekki verið að huga nægilega vel að lífeyrisþegum, að barnafjölskyldum og mér þykir það leitt ég skuli ekki geta stutt þetta mál,“ sagði Eygló.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×