Enski boltinn

Liverpool hafði betur í sjö marka spennutrylli gegn Arsenal

Liverpool vann ótrúlegan 4-3 sigur á Arsenal í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag en eftir að hafa lent undir í upphafi leiks náðu lærisveinar Jurgen Klopp að svara með fjórum mörkum í röð.

Arsenal náði að minnka muninn niður í eitt mark á ný korteri fyrir leikslok en náðu ekki að bæta við jöfnunarmarkinu og þurftu því að sætta sig við tap í fyrsta leik tímabilsins.

Theo Walcott fékk vítaspyrnu á 29. mínútu leiksins þegar Alberto Moreno braut á honum innan vítateigs Liverpool en Walcott sem steig sjálfur á punktinn lét Simon Mignolet verja frá sér.

Aðeins einni mínútu síðar var hann hinsvegar búinn að bæta upp fyrir það þegar hann skoraði með skoti úr vítateig Liverpool.

Allt virtist benda til þess að Arsenal myndi leiða í hálfleik en Philippe Coutinho náði að jafna metin með stórkostlegu marki undir lok fyrri hálfleiks. Skoraði hann með skoti úr aukaspyrnu 30-35 metrum frá marki, óverjandi fyrir Petr Cech í marki Arsenal.

Gestirnir úr Bítlaborginni byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti en á fimmtán mínútna kafla í upphafi seinni hálfleiks bætti liðið við þremur mörkum. Adam Lallana kom Liverpool yfir en stuttu síðar bættu Coutinho og Saido Mane við þriðja og fjórða marki Liverpool.

Alex Oxlade-Chamberlain náði að minnka muninn á 64. mínútu og Callum Chambers minnkaði muninn niður í eitt mark með skallamarki á 75. mínútu sem gerði það að verkum að það var rafmögnuð spenna á Emirates-vellinum seinustu mínútur leiksins.

Þrátt fyrir að hafa korter til að ná að jafna metin náðu Skytturnar ekki að bæta við marki til þess að bjarga stigi og lauk leiknum því með ótrúlegum 4-3 sigri Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×