Erlent

Rússar saka Úkraínu um innrás í Krímskaga

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Úkraínumenn segja ásakanir Rússa fáránlegar.
Úkraínumenn segja ásakanir Rússa fáránlegar. Vísir/Getty
Rússar hafa sakað Úkraínu um að hafa staðið að vopnaðri innrás inn í Krímskaga, landsvæðið sem Rússar innlimiðu árið 2014 eftir hörð átök.

Rússneska leyniþjónustan FSB segir að gerðar hafi verið tvær tilraunir til þess að gera innrás inn í Krímskaga um síðustu helgi. Rússneskur hermaður og starfsmaður leyniþjónustunnar hafi látið lífið í aðgerðunum. Leyniþjónustan segir að markmið aðgerða Úkraínumanna hafi verið að eyðileggja innviði samfélagsins á Krímskaga.

Leyniþjónustan segir að fundist hafi sprengjur og vopn á þeim stöðum þar sem innrásin var gerð og mikil skotbardagi hafi átt sér stað á milli innrásarmanna og rússneska hersins. Hefur Vladimír Pútín Rússlandsforseti, heitið því að öryggi á svæðinu verði hert til muna.

Forseti Úkraínu, Peter Poroshenko, segir að ásakanir Rússa um meinta innrás inn í Krímskaga séu fáránlegar og markmið þeirra sé einfaldlega að gera Rússum kleift að ógna Úkraínu enn frekar.

Fréttastofa Reuters greinir frá því að bandarísk yfirvöld hafi ekki séð nein sönnunargögn sem styðji ásakanir Rússa. Viðskiptabann vestrænna ríkja gegn Rússlandi er enn í gildi og segir sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu að það muni áfram vera í gildi allt þangað til að Rússar skili Krímskaga aftur til Úkraínu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×