
Verðtryggingarnefndin sagði Íslandslánin versta birtingarform verðtryggingar þar sem hætta væri á yfirveðsetningu á fyrri hluta lánstímans og hærri vaxtakostnaði þar sem verðbótum væri velt yfir á höfuðstól.
Breki segir hins vegar að ef greitt sé jafn mikið af verðtryggðum jafngreiðslulánum og óverðtryggðum lækki höfuðstóllinn jafn mikið í báðum tilfellum. Þá séu afborganir af óverðtryggðu jafngreiðsluláni nú allt að 50 prósent hærri en af verðtryggðu jafngreiðsluláni.
Breki segist mótfallinn því að banna ákveðna lánaflokka. Frekar ætti að fræða almenning um mismunandi tegundir lána og tryggja að fólk skilji hvað felist í að taka lán.
Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, segir það geta breytt áformum fólks um kaup á húsnæði verði hámarkslánstími verðtryggðra jafngreiðslulána styttur í 25 ár vegna þess hve mikið afborganir af lánum hækki. Sigurður Ingi benti á í samtali við RÚV um helgina að skoða mætti mótvægisaðgerðir fyrir þann hóp sem stytting á hámarkslánstíma kæmi illa við. Ásgeir nefnir að það geti verið skynsamlegt að leyfa ungu fólki sem sé að kaupa litlar íbúðir að taka hin löngu Íslandslán. „Það er allt annað þegar fólk á miðjum aldri er að fjármagna einbýlishús með þeim. Vegna þess að hættan við þessi lán er sú að þú sért ekki að greiða neitt af höfuðstól fyrstu 20 árin, og ef það kemur verðbólga færist það á höfuðstólinn, þannig að höfuðstóllinn belgist út við verðbólgu.“
Hluti Framsóknarflokksins, meðal annars Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður flokksins, hefur talað fyrir því að verðtrygging verði alfarið bönnuð á neytendalánum. „Ég skil ekki hvaða vandamál það leysir og hverjum það á eiginlega að hjálpa,“ segir Ásgeir um bann við öllum verðtryggðum lánum.
Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu.