Innlent

Reyna að ákveða dagsetningu þingkosninga á fimmtudag

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra munu hitta þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar á fimmtudag og fara meðal annars yfir það hvenær þingkosningar fari fram.

„Við munum ræða fyrirkomulag þingstarfanna og reyna ná samstöðu um það. Hluti af því verður að reyna að finna sameiginlega sýn á það hvenær eigi að kjósa,“ segir Sigurður Ingi en leitað var eftir viðbrögðum hans í kjölfar ummæla þingflokksformanna stjórnarandstöðunnar um að óvissa um tímasetningu boðaðra kosninga myndi trufla þingstörfin.

„Það er í sjálfu sér engin óvissa en það hefur legið lengi fyrir að það er stefnt að kosningum í haust þegar við höfum lokið yfirferð þeirra verkefna sem hafa legið fyrir,“ segir Sigurður Ingi og bætir við að hann hafi trú á því að stjórnarandstaðan vilji ekki setja þingstörfin í uppnám. „Það gekk vel í vor og það voru afgreidd um þrjátíu til fjörutíu mál.“

Haft var eftir Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, í Fréttablaðinu á mánudag að skortur á dagsetningu geri uppstillingarstarfi flokksins erfitt fyrir.

Sigurður segist ekki geta séð að óákveðin tímasetning hafi truflað uppstillingarstarf flokkanna. „Mér sýnist allar stjórnmálahreyfingar vera komnar á fullt að raða á lista.“

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×