Lífið

Ný ungfrú Ísland tekur við keflinu

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Í kvöld verður ný ungfrú Ísland krýnd í 67. sinn. Undirbúningur fyrir keppnina hefur staðið yfir í allt sumar. Þetta árið er það 21 stúlka sem tekur þátt. Engar þeirra þekktust áður en ferlið hófst. Fanney Ingvarsdóttir, ungfrú Ísland árið 2010 og flugfreyja, er framkvæmdastjóri keppninnar en hún segir að stelpurnar séu afar spenntar fyrir því að stíga á svið í kvöld.

„Það er gaman að sjá hvernig þetta er allt búið að vera að smella saman síðastliðna viku. Þetta er búið að vera alveg meiriháttar. Það er búið að vera sérstaklega ánægjulegt að sjá stelpurnar blómstra og öðlast aukið sjálfstraust í gegnum ferlið. Við erum búnar að fara á fjölmiðlanámskeið, Dale Carnegie námskeið og svo auðvitað vera með nokkra viðburði til styrktar góðgerðamálum. Ein af stelpunum hljóp meira að segja heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. Allar stelpurnar tóku fagnandi á móti henni við endalínuna sem var virkilega skemmtilegt,“ segir Fanney en hún segir að það sem skipti mestu máli sé að stúlkurnar sem taka þátt séu ánægðar með ferlið ásamt því að öðlast aukið sjálfstraust.

Keppnin fer fram í Hörpunni og hún verður sýnd í beinni útsendingu á mbl.is klukkan 20.00 í kvöld. Dómarar keppninnar eru þau Hafdís Jónsdóttir, sem er eigandi keppninnar ásamt því að vera formaður dómnefndar, Björn Leifsson sem er eiginmaður Hafdísar og einnig eigandi keppninnar, Fanney Ingvarsdóttir sem er framkvæmdastjóri keppninnar, Sigurlaug Dröfn Bjarnadóttir, eigandi Reykjavík Make up school, Linda Mjöll Þorsteinsdóttir, eigandi Beautybar og Reykjavík Ink, og Helgi Ómarsson sem er umboðsmaður Elite Model Management í Kaupmannahöfn og Eskimo á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.