Skoðun

Svarthvítur heimur Dýraverndunarsambandsins

Einar Freyr Elínarson skrifar
Er fólk illkvittið? Er ástæða þess að illa er hugsað um dýr slæmt innræti þess sem á að sjá um þau?

Ef þú spyrð Dýraverndunarsamband Íslands að þá er svarið vafalaust já. Erfitt er að lesa annað úr fréttum en að svipta eigi þá bændur opinberum greiðslum sem verða uppvísir að slæmri meðferð á dýrum.

Reynum að setja þetta í samhengi.

Foreldri verður uppvís að slæmri meðferð á barninu sínu. Það er hræðilegt, allir eru sammála um að slíkt eigi ekki að viðgangast. En er besta úrræðið í alvörunni að sekta foreldrið? Erum við svo blind að halda að aðstæður barnsins batni ef foreldrið er sektað?

Nei að sjálfsögðu ekki. Í þeim málum erum við með fagfólk sem að metur aðstæður fjölskyldunnar og leggur til ákveðin úrræði til þess að vinna á vandanum. Orsakirnar eru yfirleitt félagsleg vandamál. Lagt er upp með að fá foreldra til samstarfs við félagsráðgjafa eða sálfræðing til þess að bæta ástandið.

Af hverju erum við þá svona blind fyrir því að hið sama geti verið upp á teningnum þegar kemur að dýravernd?

Er það virkilega svo langsótt að ástæður þess að fólk getur ekki hugsað um dýrin sín séu félagslegs eðlis?

Þessu þarf að breyta. Það gerist ekki nema með hugarfarsbreytingu. Um leið og það tekst getum við farið að beita réttum leiðum og verkfærum til að ráðast að rót vandans.

Við eigum ekki að kippa fótunum undan fólki sem þegar stendur höllum fæti í lífinu. Að beita sektum og niðurlægingu er eins og að hella olíu á eldinn. Félagslegum vandamálum verður ekki eytt með slíkum aðferðum.

Við þurfum bara að átta okkur á því að heimurinn er ekki svarthvítur.

 




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×