Innlent

Fundu þrjú skotvopn í skútunni við Suðureyri

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skútan kom til Suðureyrar í gærkvöldi.
Skútan kom til Suðureyrar í gærkvöldi. Vísir/Pjetur
Lögreglan á Vestfjörðum hefur í dag yfirheyrt skipverja erlendrar skútu sem kom til hafnar á Suðureyri í gærkvöldi en síðastliðna nótt voru lögreglan og sérsveitarmenn kallaðir út vegna ágreinings sem kom upp á meðal áhafnarmeðlima. Einn skipverjanna hafði hótað að beita skotvopni.

Í tilkynningu frá lögreglunni sem send var út fyrir stundu kemur fram að skipstjóri skútunnar hafi verið handtekinn en hann var ölvaður við handtöku. Honum hefur nú verið sleppt lausum en lögreglustjórinn á Vestfjörðum hefur gert manninum sekt á grundvelli vopnalaga og einnig brota á lögum er snúa að tilkynningaskyldu skipa til vaktstöðvar siglinga.

„Hald var lagt á þrjú skotvopn sem reyndust vera um borð í skútunni. Þau hafa verið afhent tollgæslunni. Við rannsókn málsins kom ekkert fram er bendir til þess að þeim hafi verið beitt eða reynt hafi verið að grípa til þeirra. Hins vegar töldu tilkynnendur sig hafa ástæðu til að ætla að skipstjórinn myndi grípa til þeirra vegna þess ágreinings sem varð um borð í skútunni í nótt,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×