Innlent

Vopnað lið lögreglu hafði afskipti af mönnum á skútu á Suðureyri

Atli Ísleifsson skrifar
Suðureyri.
Suðureyri. Vísir/Pjetur
Vopnað lið lögreglu hafði afskipti af mönnum um borð í erlendri skútu sem lá við bryggju á Suðureyri í nótt.

Lögreglu barst tilkynning um að ágreiningur hafi orðið meðal áhafnarmeðlima um borð í skútunni klukkan 2:23 í nótt þar sem einn áhafnarmeðlima hafði hótað að beita skotvopni. Alls voru fimm erlendir áhafnarmeðlimir um borð.

Í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar á Vestfjörðum segir að ljóst sé að fleiri en eitt skotvopn voru um borð í skútunni á þessum tíma.

„Þrír áhafnarmeðlimana fóru frá borði en tveir urðu eftir. Annar þeirra sem eftir varð um borð mun hafa haft í þessum hótunum.

Fimm lögreglumenn fóru þá þegar á vettvang, búnir viðeigandi varnarbúnaði og vopnum. Á sama tíma var kallað eftir aðstoð sérsveitar. Lögreglumenn á vettvangi tryggðu aðstæður meðan beðið var sérsveitar.

Þyrla LHG flutti sérsveitarmenn vestur og í framhaldi komu þeirra, eða kl.06:40, var farið um borð í skútuna og sakborningur handtekinn. Hann var færður í fangageymslu á Ísafirði. Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

Skúta þessi mun hafa komið til hafnar á Suðureyri um kl.21:00 í gærkvöldi,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×