Viðskipti erlent

Deloitte lögsótt vegna peningaþvættis

Ingvar Haraldsson skrifar
Fjárfestingafélag í Dubai telur Deloitte ekki hafa staðið sig í stykkinu.
Fjárfestingafélag í Dubai telur Deloitte ekki hafa staðið sig í stykkinu.
Fjárfestingafélag í Dubai hyggst lögsækja Deloitte í Mið-Austurlöndum. Endurskoðunarfyrirtækið er sakað um að hafa ekki komið upp um peningaþvætti hjá gjaldþrota líbönskum banka að því er Business Insider greinir frá.

Lebanese Canadian Bank (LCB) greiddi yfir 100 milljónir dollar, um 12 milljarða íslenskra króna árið 2011 eftir rannsókn bandarískra yfirvalda á peningaþvætti bankans tengdu fíkniefnaviðskiptum og fjármögnun Hezbollah og fleiri herskárra samtaka.

Deloitte hefur verið aðalendurskoðandi bankans frá árinu 1995. LCB var lokað eftir rannsókn FBI og DEA, sem fer með rannsókn fíkniefnamála í Bandaríkjunum. Eftir það voru flestar eignir LCB seldar franska bankanum Société Générale.

Haft er eftir forsvarsmönnum Deloitte á vef Business Insider að engin stefna hafi enn borist og fyrirtækið standi við það efni sem það hafi gefið út. Bandaríska fjármálaráðuneytið sagði í skýrslu árið 2011 að reikningar hjá LCB hefðu ítrekað verið notaðir af einstaklingum sem tengdust fíkniefnasmygli og peningaþvætti vegna vanrækslu stjórnenda bankans. Nærri 230 milljónir dollara, um 17 milljarðar íslenskra króna, af illa fengnu fé, hafi farið í gegnum LCB á meðan Deloitte hafi séð um endurskoðun bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×