Erlent

Hryðjuverk fæla ferðamenn á aðrar slóðir

Una Sighvatsdóttir skrifar
París er einn mest sótti ferðamannastaður í heimi og tekur á móti 16 milljónum erlendra gesta á ári hverju. Ferðaþjónustan í heild stendur undir ríflega 7 prósentum af vergri landsframleiðslu Frakklands og er þar með ein af mikilvægari stoðum franska hagkerfisins. Nú í sumar hafa hinsvegar verið markvert færri ferðamenn á götum Parísar, en að sama skapi áberandi fleiri vopnaðir lögreglu- og hermenn.

Eftir ítrekaðar hryðjuverkaárásir í Frakklandi hefur orðið snarpur samdráttur og samkvæmt nýjum tölum frá ferðamannaráði Parísar hafa milljón færri gestir heimsótt borgina það sem af er ári, miðað við sama tíma og í fyrra, þrátt fyrir EM í fótbolta. Heimsóknir útlendinga hafa dregist saman um hátt í 12% og frönskum ferðamönnum í París hefur fækkað um 5%, sem nemur tekjutapi upp á um milljarð króna.

Ferðamálastofa Parísar segir að ástæðuna megi rekja til ótta ferðamanna við frekari hryðjuverkaárásir. Það eigi ekki síst við um asíska ferðamenn, því mestur samdráttur hefur orðið í gestakomum frá Japan og Kína.

Heimaslóðir hryðjuverkamanna vekja forvitni 

Í Brussel hefur sömuleiðis orðið um 15-20% samdráttur í ferðamennsku, eftir að 32 létu lífið í hryðjuverkaárás á borigna í mars. Þeir sem þó heimsækja borgina hafa hinsvegar fengið skyndilegan áhuga á Molenbeek, einu fátækasta hverfi borgarinnar sem varð alræmt um allan heim eftir að í ljós komu að hryðjuverkamennirnir bæði í Brussel og París áttu rætur að rekja þangað.

Áður átti enginn þangað erindi en nú eru ferðamenn algeng sjón í Molenbeek. Þangað fara þeir til að kynnast af eigin raun úr hvaða umhverfi hryðjuverkamennirnir eru sprottnir, en kemur mörgum á óvart að sjá hversu venjulegt og vinalegt hverfið er.

Og á meðan ferðaþjónustan í París og Brussel heldur krísufundi um hvernig snúa megi við stöðunni leita ferðamenn í Evrópu á aðrar slóðir, þar á meðal til Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×