Skoðun

Vinstri menn vilja fjölga borgarfulltrúum

Sigríður Á. Andersen og Kjartan Magnússon skrifar
Á síðasta kjörtímabili þrýsti vinstri stjórnin þeirri lagabreytingu í gegnum þingið að skylt yrði að fjölga borgarfulltrúum í Reykjavík við næstu borgarstjórnarkosningar úr 15 í að lágmarki 23 en í allt að 31.

Borgarfulltrúar í Reykjavík eru nú 15 og hafa aldrei verið fleiri að einu kjörtímabili undanskildu. Á kjörtímabilinu 1978-1982 var ákveðið að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 21 en á næsta kjörtímabili ákvað borgarstjórn að fækka þeim aftur og hefur síðan ekki séð ástæðu til að fjölga þeim aftur.

Engin ástæða er til að löggjafinn þvingi borgaryfirvöld til fjölgunar borgarfulltrúa og að stækka þannig kerfið. Nú eru um átta þúsund kjósendur að baki hverjum borgarfulltrúa og er það svipað hlutfall og tíðkast í höfuðborgum Norðurlandanna.

Sigríður hefur því ásamt sjö öðrum þingmönnum lagt fram og mælt fyrir frumvarpi á Alþingi sem afnemur þessa skyldu til fjölgunar borgarfulltrúa. Frumvarpið bíður þess nú að vera afgreitt úr nefnd til annarrar umræðu. Kjartan hefur ásamt öðrum borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins flutt tillögu um að borgarstjórn skori á Alþingi að breyta umræddu lagaákvæði þannig að borgarstjórn hafi sjálfdæmi um hvort borgarfulltrúum verði fjölgað eða ekki.

Í umsögn forsætisnefndar borgarinnar um frumvarp Sigríðar er lagst gegn því. Vinstri flokkarnir í borgarstjórn, Samfylking, Björt framtíð, Píratar og Vinstri græn, styðja þar með að borgarfulltrúum í Reykjavík verði fjölgað um a.m.k. 53 prósent.

Það vekur sérstaka athygli að vinstri flokkarnir í borgarstjórn styðji með þessum hætti að Alþingi taki ráðin af borgarstjórninni. En þar sem um er að ræða útþenslu kerfisins þarf það ekki að koma á óvart að vinstri flokkarnir líti til fjölgunar borgarfulltrúa með sérstakri velþóknun.

Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Á vegamótum

Sigurðar Inga Jóhannssonar var snarað upp í flýti eftir að fyrrverandi forsætisráðherra hrökklaðist frá völdum vegna Panama­skjala og sænskra sjónvarpsviðtala. Frá fyrsta degi hefur hinni nýju stjórn orðið tíðrætt um erindi sitt og hin fjölmörgu mikilvægu mál sín, sem ljúka yrði fyrir kosningar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×