Erlent

Ætlar að segja þúsundum embættismanna upp

Samúel Karl Ólason skrifar
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja.
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja. Vísir/EPA
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, ætlar að segja upp öllum þeim embættismönnum sem ráðnir voru af fyrri forsetum. Forsetinn segir þetta lið í baráttu sinni gegn spillingu en gagnrýnendur hans segja valdbeitingu hans óhóflega.

AFP fréttaveitan hefur eftir Duterte að hann segist enn heyra af spillingu í Filippseyjum og því hefði hann tekið þessa ákvörðun.

Hann hefur ekki verið forseti í tvo mánuði og hefur þegar valdið miklum usla. Meðal annars hefur hann hótað að lýsa yfir herlögum ef dómskerfi Filippseyja þvælist fyrir átaki Duterte gegn fíkniefnum í landinu. Minnst níuhundruð fíkniefnasala og neytenda hafa verið drepin án dóms og laga af lögregluþjónum og vopnuðum gengjum borgara.

Sameinuðu þjóðirnar segja átakið svokallaða vera brot á alþjóðalögum og að alvarleg mannréttindabrot hafi verið framin.

Eftir það hótaði Duterte að Filippseyjar myndu slíta sig frá Sameinuðu þjóðunum. Samkvæmt BBC sagðist hann mögulega ætla að biðja Kína og þjóðir Afríku um að stofna ný samtök og sakaði hann Sameinuðu þjóðirnar um að bregðast í baráttu gegn hryðjuverkum, átökum og hungri.

Utanríkisráðherra Filippseyja hefur þó sagt að landið muni ekki slíta sig frá Sameinuðu þjóðunum.


Tengdar fréttir

Duterte sór embættiseið á Filippseyjum

Hinn umdeildi nýkjörni forseti Filippseyja, hörkutólið Rodrigo Duterte sór embættiseið sinn í morgun en hann vann stórsigur í forsetakosningum sem fram fóru í maí. Duterte, sem er fyrrverandi borgarstjóri í Davao, kollvarpaði valdakerfi landsins með sigrinum og lofaði blóðugu stríði við glæpagengin í landinu og að hart verði tekið á spillingu í stjórnsýslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×