Innlent

Stjórnarmenn Kaupþings notuðust við bakdyr

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Frá Hilton-hótelinu fyrr í dag.
Frá Hilton-hótelinu fyrr í dag. Vísir/Ernir
Stjórnarfundur eignarhaldsfélagsins Kaupþings, stærsta hluthafa Arion-banka, hófst á Hilton-hótelinu í Reykjavík á sjötta tímanum í dag. Þar verður tekin ákvörðun um bónusgreiðslur til lykilstarfsmanna en slíkar hugmyndir hafa verið harðlegar gagnrýndar undanfarið. Greiðslurnar gætu numið allt að einum og hálfum milljarði í heildina, sem gerir á milli 50-100 milljónir á mann.

Mótmælendur höfðu tekið sér stöðu fyrir utan aðalinngang hótelsins en hittu þó aldrei stjórnarmennina sem notuðust við bakdyr til að komast inn á hótelið. Ekki fengust upplýsingar hjá starfsfólki hótelsins um hvar fundurinn færi fram.

Boðberar frá þjóðinni

Vísir ræddi við mótmælendurna Sigurð Haraldsson og Leif A. Benediktsson sem höfðu tekið sér stöðu fyrir utan hótelið. Þeir sögðust ávallt reyna að vera þar sem óréttlætið er. „Við erum boðberar frá þjóðinni,“ sögðu þeir hressir í bragði.

„Nú er annað hrun framundan og aftur verið að stela," sagði Sigurður í stuttri tölu fyrir utan hótelið þar sem hann jafnframt sagði að mótmælendur ætluðu að stöðva bónusgreiðslur stjórnarmanna Kaupþings.

„Við erum hér að mótmæla þessum sjálftökum manna sem komast í katlana þarna, taka eigur og skammta sér mikla bónusa og annað," segir Leifur í samtali við Vísi.

„Þeir eru aftur farnir að borga sjálfum sér ofurlaun og svo bónusa ofan á það," segir Sigurður í samtali við Vísi.

Lög um bónusgreiðslur mikilvæg

Leifur telur mikilvægt að Alþingi setji lög á slíkar bónusgreiðslur.  „Það er mikill órói í samfélaginu, þið heyrið það líka bara á Alþingi. Alþingismenn standa nú hver af öðrum upp og vilja setja lög, og það hratt. Það er eins gott að þeir geri það."

Sigurður og Leifur sögðu það jafnframt líklegt að stjórnarmenn Kaupþings hafi ekki þorað að mæta mótmælendum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×