Enski boltinn

Rooney hættir eftir HM í Rússlandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney ræðir við fjölmiðla í morgun.
Wayne Rooney ræðir við fjölmiðla í morgun. Vísir/Getty
Wayne Rooney ætlar að hætta að spila með enska landsliðinu eftir HM 2018 en það staðfesti hann í samtali við enska fjölmiðla í dag.

Rooney ræddi við fjölmiðla í dag í fyrsta sinn eftir að Sam Allardyce tilkynnti í gærkvöldi að Rooney yrði áfram fyrirliði enska landsliðsins.

„Eftir Rússland finnst mér tími til kominn að kveðja landsliðið,“ sagði Rooney en hann á að baki 115 leiki með enska landsliðinu. Hann er markahæsti leikmaður þess frá upphafi með 53 mörk.

„Ég hef gert upp hug minn. HM í Rússlandi verður síðasta tækifærið til þess að vinna eitthvað með enska landsliðinu. Ég ætla því að njóta þessara tveggja ára og vonandi klára landsliðsferilinn á góðum nótum,“ sagði Rooney enn fremur.

Það vakti athygli þegar landsliðshópur Englands var tilkynntur að Rooney var þá flokkaður sem miðjumaður. Hann segist ekki hafa rætt við Allardyce um hvaða stöðu hann muni spila í liðinu.

„Það er auðvitað undir honum komið. Við munum ræða þetta á næstu dögum en ég er tilbúinn að spila á miðjunni, sem tía eða framherji.“

Alan Shearer hvatti Rooney í gær til að hætta að spila með enska landsliðinu til að einbeita sér að Manchester United og að halda sæti sínu þar.


Tengdar fréttir

Rooney heldur fyrirliðabandinu hjá Englandi

Wayne Rooney verður áfram með fyrirliðabandið hjá enska landsliðinu. Sam Allardyce, nýr landsliðsþjálfari Englands, segir að þetta hafi verið auðveld ákvörðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×