Viðskipti erlent

Apple mun áfrýja: „Greiðum alla þá skatta sem okkur ber hvar sem er“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Apple mun áfrýja úrskurði Framkvæmdastjórnar ESB.
Apple mun áfrýja úrskurði Framkvæmdastjórnar ESB. Vísir/Getty
Bandaríski tæknirisinn Apple mun áfrýja úrskurði Framkvæmdastjórnar ESB um að fyrirtækinu beri að greiða írskum yfirvöldum 13 milljarða evra, 1.700 milljarða króna, vegna ógreiddra skatta þar í landi.

Í yfirlýsingu frá Apple segir að úrskurður Framkvæmdastjórnarinnar sé tilraun til þess að kollvarpa hinu alþjóðlega skattkerfi og snúist ekki um hversu mikið Apple greiði í skatta heldur mun frekar hvar skattarnir séu greiddir.

Segir Apple að úrskurðurinn muni hafa neikvæð áhrif á efnahagslíf í Evrópu og koma í veg fyrir sköpun starfa og fjárfestingu á vinnumarkaði. Heldur fyrirtækið því fram að Apple greiði alla þá skatta sem því beri að greiða, hvar sem fyrirtækið starfi.

Sjá einnig:Apple skipað að greiða þúsundir milljarða vegna ógreiddra skatta í Írlandi

Apple var í dag skipað að greiða írskum yfirvöldum 13 milljarða evra vegna vangreiddra skatta þar í landi. Að mati ESB nýtti Apple sér úrskurði írskra yfirvalda til þess að lágmarka skattgreiðslur sínar þar í landi. Telur ESB það vera ígildi ólöglegrar ríkisaðstoðar.

Fyrirtækið nýtir sér þetta fyrirkomulag með því að beina stórum hluta tekna af alþjóðlegri sölu á vörum sínum í gegnum Írland.

Framkvæmdastjórn ESB segir að fyrirkomulagið hafi gert það að verkum að eitt árið hafi Apple til að mynda að eins greitt 50 evrur í skatt fyrir hverja milljón evrur sem fyrirtækið halaði inn í Evrópu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×