Lífið

Baltasar leikur á móti Aliciu Vikander og Evu Green

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Alicia og Eva leika systur sem rekast á Baltasar á ferðalagi sínu um Evrópu.
Alicia og Eva leika systur sem rekast á Baltasar á ferðalagi sínu um Evrópu. Vísir/Getty
Eins og alþjóð veit snýr Baltasar Kormákur aftur á hvíta tjaldið í næstu viku en hann fer með aðalhlutverkið í Eiðnum sem hann leikstýrir einnig sjálfur. Það er fyrsta kvikmyndahlutverk hans síðan hann fór með aðalhlutverkið í Reykjavík-Rotterdam árið 2008.

Eitthvað hefur honum líkað veran fyrir framan myndavélina því nú hefur Balti tekið að sér hlutverk í kvikmyndinni Euphoria en tökur hefjast innan skamms. Framleiðandi myndarinnar og aðalleikkona er Óskarsverðlaunahafinn Alicia Vikander en hún vann núna síðast fyrir leik sinn í kvikmyndinni The Danish Girl. Franska leikkonan Eva Green fer einnig með stórt hlutverk í myndinni.

„Þetta hefur alltaf verið hluti af mér og ég hætti þessu aldrei,“ segir Baltasar í samtali við Vísi.

Baltasar mætti í 19:10 á föstudaginn og ræddi um Eiðinn, leikstjórn og leiklistina. Viðtalið má sjá í spilaranum að neðan.

„Ég fór að gera annað og það bara yfirtók líf mitt. En það hefur einstaka sinnum komið fyrir að ég hef þurft að hafna hlutverkum sem mig hefur langað til að gera vegna tímaleysis. Ég endaði oft á því að þurfa bakka út úr verkefnum sem ég hafði verið jákvæður fyrir. Á endanum hefur fólk líklegast bara hætt að reyna að fá mig.“

Baltasar fer með lítið hlutverk í myndinni og verður aðeins nokkra daga á tökustað. Auk þeirra þriggja leika Charlotte Rampling og Charles Dance í myndinni.

Myndin fjallar um systur sem eiga stormasamt samband sem fara í ferðalag um Evrópu en þær eru á leiðinni á dularfullan stað. Myndinni er leikstýrt af sænska leikstjóranum Lisu Langseth en þetta verður fyrsta kvikmyndin sem hún gerir á ensku. Búist er við því að myndin verði frumsýnd á næsta ári.


Tengdar fréttir

Ætlaði að bjarga litlu systur

Fyrir nokkrum árum komst ekkert annað að í lífi Ólafs Egilssonar en að reyna að bjarga yngri systur sinni úr heimi fíkniefna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.