Skoðun

Kosið um peninga og völd

Guðmundur Ari Sigurjónsson skrifar
Nú styttist óðum í kosningar og allir flokkar á fullu í að manna framboðslista sína. Það fylgir alltaf kosningabaráttu að stjórnmálaflokkar fari í sparifötin og byrji loksins að tala um eldri borgara, ungt fólk og öryrkja. Það er því ekkert skrýtið að erfitt geti reynst að gera upp á milli stjórnmálaflokka í kosningabaráttu þar sem svo virðist sem allir vilji auka jöfnuð og velferð þessar síðustu vikur fyrir kjördag.

Það getur því verið gott að fjarlægja kosningaloforðin og allt umstangið sem fylgir kosningum og líta á stóru myndina. Næstu alþingis­kosningar munu snúast í megindráttum um tvo hluti, peninga og völd, og mun baráttan verða á milli ójafnaðarmanna og jafnaðarmanna.

Ójafnaðarmenn sem nú eru í ríkisstjórn hafa gefið það út að þeir vilji einfalda skattkerfið og snúa baki við þrepaskiptu skattkerfi. Jafnaðarmenn berjast fyrir því að fjölga skattþrepum og hækka persónuafslátt til að lækka skatta á þá sem hafa minnst á milli handanna en hækka þá á þá sem eru tekjuhæstir í samfélaginu. Þannig vilja jafnaðarmenn auka ráðstöfunartekjur þeirra sem nú hafa minnst á milli handanna á kostnað þeirra sem synda í seðlum.

Ójafnaðarmenn hafa gefið það út að þeir vilji berjast gegn nýrri stjórnarskrá, halda þannig völdum hjá valdhöfum og auðlindum frá almenningi. Jafnaðarmenn berjast fyrir því að færa völdin í auknum mæli til almennings og tryggja það að auðlindir landsins og stærri hluti af þeim arði sem skapast sé í almannaeigu. Það er gert með nýrri stjórnarskrá sem byggir á tillögum stjórnlagaráðs.

Stjórnmál á Íslandi eru alls ekkert flókin þó svo að við eigum það til að flækja þau með því að fara út í endalausa rökræðu um tæknilegar útfærslur. Meirihluti Íslendinga er jafnaðarmenn en til þess að tryggja það að jafnaðarmenn leiði næstu ríkisstjórn þurfum við sem þjóð að sameinast um grunngildin í stað þess að rífast um smáatriðin. Þetta er ekki flókið, við viljum auka jöfnuð með því að auka vald og ráðstöfunartekjur almennings á Íslandi.

Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×