Fótbolti

Zlatan: Sé eftir einu hvað varðar Mourinho

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan Ibrahimovic, framherji Manchester United, segist aðeins sjá eftir einu hvað varðar samstarf hans og José Mourinho, knattspyrnustjóra liðsins. Hann hefði viljað vinna með honum oftar og lengur en þetta eina tímabil sem þeir voru saman hjá Inter á Ítalíu.

Zlatan er nú mættur til Manchester og starfar undir stjórn Mourinho en saman verða þeir í eldlínunni í fyrsta Manchester-slag tímabilsins á morgun þegar City kemur í heimsókn á Old Trafford.

Sjá einnig:Pep niðurlægði Mourinho fyrir framan 400 milljónir þegar þeir mættust í fyrsta sinn á Spáni

Bæði lið eru með fullt hús stiga en beðið er eftir leiknum með gríðarlegri eftirvæntingu. Ekki síst vegna fjandskaps Mourinho og Pep Guardiola, knattspyrnustjóra Manchester City. Leikurinn hefst klukkan 11.30 en upphitun hefst á Stöð 2 Sport HD klukkan 11.10.

Mourinho og Zlatan störfuðu saman hjá Inter í eitt tímabil áður en Svíinn fór til Barcelona þar sem hann lenti upp á kant við Guardiola. Hann var ekki hluti af Inter-liðinu sem vann þrennuna ári síðar.

„Mourinho er snillingur. Hann veit allt um leikinn,“ sagði Zlatan við fréttamenn fyrir stórleikinn gegn Manchester City á morgun en bæði honum og Mourinho er illa við Guardiola og langar þá mikið að vinna.

„Ég sé ekki eftir mörgu en ég sé eftir að hafa ekki fengið tækifæri að spila fyrir Mourinho lengur. Þegar ég fékk tækifæri að spila aftur fyrir hann hjá United var ákvörðunin auðveld.“

„Hver myndi ekki vilja vera þjálfaður af Mourinho? Ég er hjá frábæru félagi með frábæra þjálfara og magnaða stuðningsmenn. Ég vil gera allt sem get til að vinna eitthvað fyrir þá,“ sagði Zlatan Ibrahimovic.


Tengdar fréttir

Dýrasti knattspyrnuleikur sögunnar

Nágrannaslagur Man. Utd og Man. City um helgina verður sögulegur að því leyti að liðin hafa aldrei mætt til leiks með eins dýra leikmenn. Það sem meira er þá mun þessi leikur slá öll met yfir dýr knattspyrnulið. Þetta verður dýrasti leikur sögunnar.

Claudio Bravo, ertu klár?

Sænski framherjinn Zlatan Ibrahimovic hjá Manchester United er klár í slaginn fyrir Manchester-slaginn á Old Trafford í hádeginu á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×