Erlent

Tyrkir senda ellefu þúsund kennara í leyfi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Tyrknesk börn nýta síðustu daga sumarfrísins í að kæla sig niður í hitanum.
Tyrknesk börn nýta síðustu daga sumarfrísins í að kæla sig niður í hitanum. Nordicphotos/AFP
Ríkisstjórn Tyrklands hefur sent rúmlega ellefu þúsund grunnskólakennara í leyfi vegna hugsanlegra tengsla við hinn útlæga Verkamannaflokk Kúrda (PKK).

Þessi rúmu ellefu þúsund bætast ofan á þá tugi þúsunda sem sagt var upp innan skólakerfisins eftir misheppnaða valdaránstilraun í júlí. Frá þessu greindi BBC í gær.

Samkvæmt yfirlýsingu sem menntamálaráðuneyti Tyrklands sendi frá sér í gær voru alls 11.285 kennarar sendir í launað leyfi frá störfum í gær á meðan rannsókn á meintum tengslum stendur yfir.

Ef upp kemst að umræddir kennarar tengjast PKK má búast við því að þeir missi vinnuna þar sem PKK eru álitin hryðjuverkasamtök í Tyrklandi sem og í Bandaríkjunum og innan Evrópusambandsins.

Binali Yildirim forsætisráðherra sagði á blaðamannafundi í borginni Diyarbakir í gær að fleiri væru grunaðir um að tengjast hryðjuverkahópum, alls um 14.000 kennarar.

Þá hvatti Yildirim ríkisstjóra á þeim svæðum í suðausturhluta Tyrklands þar sem einna flestir Kúrdar búa til að ganga lengra í baráttunni gegn PKK.

Þá greindi Anadolu, ríkisfréttastofa Tyrklands, frá því að búist væri við því að eftir rannsókn á meintum tengslum umræddra ellefu þúsunda yrðu mál þeirra tæpu þriggja þúsunda sem eftir standa rannsökuð.

Eftir valdaránstilraun júlímánaðar, sem tyrknesk yfirvöld kenna útlæga klerknum Fethullah Gulen um, sagði tyrkneska ríkið upp rúmlega fimmtán þúsund starfsmönnum í skólakerfinu og afturkallaði kennsluréttindi um 21.000 grunnskólakennara.

Þar með er ljóst að meira en þrjátíu þúsund kennarar hafa misst vinnuna í sumar þótt sumir þeirra muni snúa aftur ef grunur ríkisstjórnarinnar um tengsl við PKK reynist ekki á rökum reistur.

Alls starfa 850 þúsund kennarar í Tyrklandi. Óljóst er hvaða áhrif þetta mun hafa á skólahald sem á að hefjast í næstu viku.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir

Erdogan lýsir yfir neyðarástandi

Segir neyðarástandið til þess komið svo hægt væri að fjarlæga öll ummerki „þeirra hryðjuverkasamtaka“ sem komu að valdaráninu misheppnaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×