Innlent

Hólmsheiði seinkar enn frekar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fangelsið á Hólmsheiði var opnað með pompi og prakt þann 10. júní síðastliðinn en hefur ekki enn verið tekið í notkun.
Fangelsið á Hólmsheiði var opnað með pompi og prakt þann 10. júní síðastliðinn en hefur ekki enn verið tekið í notkun. vísir/anton brink
Nýtt fangelsi á Hólmsheiði verður tekið síðar í notkun en áætlað var. Stefnt var að því að fyrstu fangarnir gætu hafið afplánun um síðustu mánaðamót en af því varð ekki.

„Við gerum ráð fyrir að fyrstu fangar fari í hús núna um mánaðamótin september-október. Ég er bjartsýnn á að það takist,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri við Fréttablaðið.

Páll Winkel fangelsismálastjórivísir/andri marinó
Nýja fangelsið var vígt 10. júní síðastliðinn og hafði fangelsismálastjóri vonast til þess að hægt væri að boða fyrstu dómþola í afplánun við afhendingu. Í samtali við Vísi 28. júlí síðastliðinn sagði hann að „[það væri] seinkun á þessu og lítil sem engin vinna í gangi“. Ófremdarástand væri í fangelsismálum.

Í hinu nýja fangelsi verður aðstaða til þess að 56 fangar geti afplánað. Fangelsið er bæði hugsað sem gæsluvarðhaldsfangelsi og sem móttökufangelsi. Þá verður þar sérstök álma fyrir kvenfanga í langtímaafplánun en Hólmsheiði verður eina kvennafangelsið.

„Töfin nú stafar af því að við viljum hafa allt pottþétt. Það er að mjög mörgu að huga. Fangaverðir eru að læra inn á nýtt öryggiskerfi og húsnæði og við viljum ekki fara af stað fyrr en við teljum það öruggt,“ segir Páll.

Líkt og áður segir er stefnt að því að fyrstu fangarnir verði kallaðir í afplánun í lok þessa mánaðar. Þar verði á ferðinni allir kvenfangar sem þurfi að afplána í lokuðu fangelsi. Byrjað verði á fimm til tíu föngum og umfang síðan aukið smám saman. Um áramótin er stefnt að því að á þriðja tug fanga verði í afplánun á Hólmsheiði.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Fangelsið á Hólmsheiði opnað í dag

"Það hefur ekki verið byggt fangelsi á Íslandi síðan 1874,“ segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður verkefnastjórnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×