Skoðun

Lærdómur Færeyja

Oddný G. Harðardóttir skrifar
Við Íslendingar höfum ekki verið sammála um hvernig skipta eigi að arðinum sem auðlindirnar okkar skapa og endalausar deilur eru um málið ár eftir ár. Þó margt hafi tekist vel í sjávarútvegi hér á landi þá vantar enn réttlætistilfinninguna um að samfélagið allt njóti góðs af auðlindanýtingunni eins og best verður á kosið. Því það er til lítils að eiga verðmætar þjóðarauðlindir ef sjúkrahúsin og skólarnir njóta ekki góðs af.

Fullt verð í eigin vasa

Kvótaútboð eru þegar stunduð á Íslandi en þau eru alfarið í höndum einkaaðila. Nú geta þeir sem fá úthlutað kvóta stungið fullu verði í eigin vasa með því að selja og leigja kvóta til þriðja aðila. Sem dæmi má nefna að kvótalitlar útgerðir þurfa að greiða stærri útgerðum 200 krónur fyrir kílóið af þorski í veiðigjald á meðan ríkið innheimtir aðeins 13 krónur. Eina breytingin með útboði á aflaheimildum er því sú að þá mun þjóðin sjálf, eigandi auðlindarinnar, stunda frumútboð á heimildum og njóta arðsins.

Fólkið nyti arðsins

Ef við gætum verið viss um að tekjurnar renni til uppbyggingar í sveitarfélögunum vítt og breitt um landið og til heilbrigðisþjónustu sem sárlega vantar fjármagn, mundi nást sú sátt sem nauðsynleg er um fiskveiðikerfið. Útgerðarmenn þyrftu þá ekki lengur að treysta á að stjórnmálamenn ákveði veiðigjald sem er þeim þóknanlegt og gætu treyst því að ekki sé verið að hygla einum umfram aðra. Fólkið í landinu fengi notið arðsins af auðlindinni til uppbyggingar í sveitarfélögunum og til almennrar velferðar. Það er réttlátt.

Í hádeginu í dag stendur Samfylkingin fyrir fundi í Sjóminjasafninu í Reykjavík um útboð á kvóta. Við höfum boðið hingað þingmanni jafnaðarmanna í Færeyjum og mun hann fara yfir lærdóm Færeyinga sem hófu útboð á aflaheimildum fyrr á þessu ári. Þangað mæta einnig fulltrúar helstu hagsmunaaðila og vonast ég eftir góðum umræðum um þetta mikilvæga mál fyrir íslenskt samfélag.

Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×