Viðskipti erlent

Sala Legokubba eykst en hagnaður ekki

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Helstu kennileiti Lundúna má finna í Legolandi, skemmtigarði Lego í dönsku borginni Billund.
Helstu kennileiti Lundúna má finna í Legolandi, skemmtigarði Lego í dönsku borginni Billund. Vísir/Getty
Danski leikfangaframleiðandinn Lego seldi ellefu prósent fleiri Legokubba á fyrri helmingi þessa árs en á sama tímabili árið 2015. Velta fyrirtækisins á sama tímabili var nærri sextán milljarðar danskra króna, andvirði 272 milljarða íslenskra króna.

Sala kubbanna jókst mest í Evrópu og Asíu. Hún hélst þó sú sama og hún var í fyrra bæði í Norður- og Suður-Ameríku.

Þrátt fyrir aukninguna dróst hagnaður saman. Hagnaður fyrri hluta þessa árs var um 3,5 milljarðar danskra króna, andvirði sextíu milljarða íslenskra króna, samanborið við um 3,6 milljarða danskra króna fyrri hluta ársins 2015.

Vöxtur fyrirtækisins var mikill á fyrri hluta ársins. Verksmiðjur voru opnaðar bæði í kínversku borginni Jiaxing og Monterrey í Mexíkó. Þá voru 3.500 nýir starfsmenn ráðnir, jafn margir og á öllu síðasta ári, og vinna nú um 18.500 hjá fyrirtækinu á heimsvísu.

Í tilkynningu fyrirtækisins í gær sagði framkvæmdastjóri Lego, Jorgen Vig Knudstorp, að það að viðhalda slíkum vexti ár eftir ár í meira en áratug bæri vitni um alla þá möguleika sem börn finna í því að leika sér með Legokubba. Einnig væri erfiðisvinna rúmlega átján þúsund starfsmanna lykilþáttur.


Tengdar fréttir

Bayer býður 7.600 milljarða í Monsanto

Þýski lyfjarisinn Bayer tilkynnti í gær um 65 milljarða dala, andvirði um 7.500 milljarða króna, tilboð sitt í bandaríska fyrirtækið Monsanto






Fleiri fréttir

Sjá meira


×