Viðskipti innlent

Verðsveiflur á markaði vegna greiningarskýrslu

Hafliði Helgason skrifar
Sjóvá hækkaði mest allra félaga í Kauphöll Íslands í gær eftir að verðmatsskýrsla Capacent kom út.
Sjóvá hækkaði mest allra félaga í Kauphöll Íslands í gær eftir að verðmatsskýrsla Capacent kom út.
Hlutabréf í Sjóvá hækkuðu mest allra hlutabréfa í Kauphöll Íslands í gær. Bréf félagsins hækkuðu um rúm fjögur prósent. Bréf Tryggingamiðstöðvarinnar hækkuðu um eitt prósent, en bréf VÍS lækkuðu um ríflega eitt prósent.

Þessar verðbreytingar eru raktar til þess að greiningardeild Capacent sendi verðmatsskýrslu um tryggingafélögin til viðskiptavina sinna í gær. Capacent hefur áður í skýrslum sínum talið Sjóvá vanmetið á markaði og heldur sig við fyrra verðmatsgengi og telur uppgjör félagsins hafa verið í samræmi við væntingar. Samkvæmt verðmatinu er félagið metið á 25,5 milljarða eða um þriðjung yfir markaðsvirði.

Verðmat Capacent á Tryggingamiðstöðinni er 21,1 milljarður króna og er það 14% yfir markaðsvirði. Verðmat Capacent nú er 6% yfir fyrra verðmati á félaginu í maí og segja greinendur Capacent uppgjör félagsins hafa verið yfir væntingum.

Capacent metur VÍS undir núverandi markaðsvirði og segir síðasta uppgjör undir væntingum sínum. Mat Capacent er að virði félagsins sé 18,5 milljarðar króna sem er sex prósentum undir markaðsvirði.

Afkoma af tryggingastarfsemi félaganna er lítil hjá TM, en tap er á þeim hluta starfseminnar hjá hinum tveimur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×