Innlent

Erlendur ferðamaður grunaður um blygðunarsemisbrot í bíl handtekinn

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Selfossi.
Frá Selfossi. vísir/pjetur
Lögreglan á Suðurnesjum handtók í nótt erlendan ferðamann sem grunaður er um blygðunarsemisbrot í bíl við Engjaveg á Selfossi í gærdag. Lögreglu á Suðurlandi bárust í gær myndir og myndskeið af athæfi mannsins í bíl sínum og leiddu þær til handtöku hans þar sem hann var að búast til brottfarar af landinu.

Málið er nú til rannsóknar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi og er maðurinn vistaður í fangageymslum á Selfossi. Telji einhver sig búa yfir upplýsingum sem gagnast gætu lögreglu við rannsóknina er sá hinn sami beðinn að hafa samband í tölvupósti á netfanginu sudurland@logreglan.is  

Í samtali við Vísi segir lögreglan á Suðurlandi að verið væri að rannsaka hvort brotið hefði beinst gegn börnum eða ungmennum. Maðurinn verður yfirheyrður í dag og í framhaldinu verður ákveðið hvort farið verður fram á gæsluvarðhald yfir honum.

DV greinir frá því að hópur nemenda við Fjölbrautaskóla Suðurlands hafi séð manninn í bíl fyrir utan Vallaskóla og íþróttahúsið Iðu á Selfossi í hádeginu í gær. Tóku nemendurnir stutt myndband af manninum þar sem hann sést stunda sjálfsfróun.

DV segir ferðamanninn vera frá Ísrael en rætt er við starfsmann bílaleigu sem leigði Ísraelsmanninum bíl hér á landi. Segir starfsmaðurinn þetta mál vera eitt það skrýtnasta sem á hans borð hefur komið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×