Lífið

Puttar þaktir bleki í 20 ár

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Jean Posocco hefur komið að útgáfu Neo-Bleks síðan í öðru tölublaði þess.
Jean Posocco hefur komið að útgáfu Neo-Bleks síðan í öðru tölublaði þess. Vísir/Anton Brink
„Sýningin er haldin vegna 20 ára afmælis Blek. Það hét fyrst Blek og breyttist síðan í Neo-Blek. Þarna til sýnis eru teikningar frá ýmsum teiknurum sem hafa teiknað í blaðinu: Hugleiki Dagssyni, mér, Inga Jenssyni, Kjartani Arnarsyni og fleiri. Í tilefni þess gaf ég út stærra blað en venjulega, 164 blaðsíður. Þetta eru íslenskar myndasögur og að hluta til erlendar, frá Frakklandi og blaðið kemur út í mjög takmörkuðu upplagi,“ segir Jean Posocco, einn af aðstandendum sýningarinnar ásamt Birni Vilhjálmssyni og Þorsteini S. Guðjónssyni, en hann var í óðaönn við að hengja upp myndir þegar blaðamaður náði tali af honum.

Hazarblaðið Blek var fyrst gefið út á vegum Hins Hússins og spratt upp úr átaksverkefni fyrir unga atvinnuleitendur. „Ég kom inn í þetta frá og með öðru tölublaði en það var hann Björn Vilhjálmsson sem startaði þessu í Hinu Húsinu á sínum tíma, árið 1996. Hann fékk þarna fullt af teiknurum með sér, mest ungir menn sem vildu teikna og búa til blað. Ég kom inn í þetta dæmi ári seinna, þá hitti ég Björn óvart og í framhaldi af því bauð hann mér í Hitt Húsið til að ræða um myndasögugerð við þessa krakka. Ég bauð mig fram í að vera í ritstjórn þarna þetta kvöld og þannig hefur það verið síðan þá. Björn Vilhjálmsson var ábyrgðarmaður til 2004 og þá tók ég alfarið við því.“

Glæsilega myndskreytt plakat auglýsir sýninguna. Mynd/Jean Posocco
„Blaðið var fyrst gefið út einu sinni á ári og svo var tekin ákvörðun um að reyna að koma þessu út á þriggja eða fjögurra mánaða fresti. Markmiðið fyrst var að fá íslenska teiknara til að teikna í öll blöðin, en það tókst misjafnlega vel að fá teiknara í blaðið þannig að við brugðum á það ráð að kaupa erlent efni, frá Belgíu og Frakklandi, og það varð kikk í sölunni – fyrstu árin var Blek ekki í sölu neins staðar, bókabúðir vildu ekki fá þetta því að þetta var í undarlegri stærð og eitthvað þannig. Þetta var neðanjarðarútgáfa þangað til að ég breytti stærðinni í A4, þá gekk betur að koma þessu blaði í sölu og bókasöfnin urðu áskrifendur.

Það er mikill áhugi á myndasögugerð í dag, það eru ofboðslega margir að teikna – bæði stelpur og strákar. Mér finnst gaman að Blek hafi verið hluti af stórri hræru sem margir tóku þátt í, líka Úlfhildur Dagsdóttir sem opnaði myndasögudeild á bókasafninu, það er margt í gangi.“

Jean gefur sjálfur út klassískar myndasögubækur eins og Ástrík, Viggó, Sval og Val og fleiri undir merkjum útgáfunnar Frosks. Fleiri upplýsingar um það má nálgast á vefnum myndasogur.is og hægt að skrá sig í áskrift á Neo-Bleki þar. Sýningin stendur nú yfir í Borgarbókasafni í Grófinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×